Ragnar Önundarson, fyrrverandi bankastjóri, segir „veiðileyfi“ gefið út á íslensk heimili með fyrirhugaðri sölu Símans á dótturfyrirtækinu Mílu. Fram kom í kvöldfréttum RÚV í kvöld að salan hafi verið rædd í þjóðaröryggisráði. Ragnar hefur sent ráðinu erindi vegna málsins.

Míla rekur ljósleiðarakerfi um land allt og er Síminn kominn langt á veg í viðræðum við alþjóðlegt stórfyrirtæki um sölu á dótturfyrirtækinu. Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, segir við RÚV að málið hafi verið rætt í þjóðaröryggisráði.

„Vegna þess að þarna er auðvitað um ákveðna grunninnviði að ræða og í kjölfarið var sett af stað skoðun á mikilvægi þessara innviða fyrir bæði þjóðar- og almannaöryggi. Sú skoðun skilaði því að það hafa átt sér stað samræður við fyrirtækið undir forystu samgönguráðherra um það hvernig verði unnt að tryggja þetta þjóðar- og almannaöryggi óháð eignarhaldi.“

Þá hefur RÚV eftir Sigurði Inga Jóhannssyni, samgönguráðherra, að lagaheimildir séu til staðar svo tryggja megi hagsmuni í þessum viðskiptum. Katrín segist binda vonir við að frumvarp sem tryggi stjórnvöldum getu til að rýna í erlendar fjárfestingar sem teljast hafa gildi fyrir almanna-og þjóðaröryggi verði lagt fram á komandi þingvetri.

„Les: Hrægammasjóði“

Ragnar Önundarson gerir málið að umtalsefni á Facebook síðu sinni. Þar vísar hann í hádegisfréttir RÚV frá því í dag um málið. Hann hefur sent ráðinu erindi.

„Skv. hádegisfréttum Rúv í dag ætlar Síminn að selja frönsku “sjóðastýringarfyrirtæki” (les: hrægammasjóði) Mílu, sem á mikilvæga innviði, ljósleiðara, um land allt. Viljayfirlýsing mun vera undirrituð,“ skrifar Ragnar.

Hann segist heita á Þjóðaröryggisráð að bregðast strax við og koma í veg fyrir þessi viðskipti.

„Ég er á móti því að “veiðileyfi” verði gefið á íslensk heimili og fyrirtæki með þessu. Míla er fákeppnisfélag, sem jaðrar við að vera í einokunaraðstöðu (tvíkeppni mætti kalla það). Slík aðstaða kallar alltaf á sjálftöku gegnum verðlagið. Samkeppnislöggjöf okkar er evrópsk og miðast við stóra, virka markaði. Hún nær ekki að verja okkur fyrir sjálftöku þeirra sem komast í forréttindaaðstöðu.“