Indriði H. Þorláksson, fyrrverandi ríkisskattstjóri og ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu, telur eðlilegt miðað við afkomu sjávarútvegsfyrirtækja að ríkið fengi 40–60 milljarða króna á ári í veiðigjöld. Alls greiddu fyrirtækin 4,8 milljarða í veiðigjöld árið 2020.

Indriði segist líta svo á að greina verði milli eðlilegs rekstrarhagnaðar og hagnaðar af sameiginlegri auðlind. Sá hagnaður tilheyri ekki fyrirtækjunum heldur þjóðinni.

„Mér sýnist að þetta séu 40–60 milljarðar á ári sem ættu að renna til þjóðarinnar,“ segir Indriði.

Margir ágallar á kerfinu

Indriði segir marga ágalla á kerfinu sem valdi því að útgerðin stórhagnist án þess að ríkið fái sitt. Stór hluti umframhagnaðar í útgerðinni sé fluttur til vinnslunnar sem gæti þýtt að 30–40 milljarðar af hagnaði stórútgerðanna séu fluttir á stað sem núverandi veiðigjaldakerfi geti ekki nálgast.

Stórbætt afkoma útgerðanna vegna hækkunar á fiskverði erlendis skili sér beint í vasa útgerðarinnar, því hlutaskiptaverð sjómanna miðist ekki við verð á erlendum mörkuðum og fólk sem starfi í frystihúsum fái ekki launahækkun vegna hærra verðs. „Búbótin er ekki þjóðarbúsins heldur er hún fyrir þessar 10 til 15 fjölskyldur sem ráða.“

Indriði H. Þorláksson, fyrrverandi ríkisskattstjóri og ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu.
Fréttablaðið/Stefán

Afskrifi skip sem endist í 30 ár á átta árum

Þá bendir Indriði á að áður en veiðigjald er ákvarðað séu afskriftir áætlaðar. Útgerðarmenn afskrifi skip sem endist í 30 ár á átta árum sem stórlækki veiðigjöldin.

Sú leið að bjóða út kvóta virki ekki sem skyldi þar sem fiskiskipaflotinn sé mestallur í eigu örfárra aðila sem eigi 70–80 prósent af kvótanum. „Það þýðir að þeir sem eiga eftirstöðvarnar hafa engan skipaflota til að bjóða í hitt.

Það er hreinlega galið,“ segir Indriði um að stjórnsýslukostnaður ríkisins við að þjónusta útgerðina sé hærri en veiðigjöldin sem renna til ríkisins.