Veiðidögum á rjúpnaveiðitímabilinu fjölgar úr 15 í 22 í haust. Umhverfis- og auðlindaráðherra hefur ákveðið að veiðitímabil verði frá fyrsta til þrítugasta nóvember í ár. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Umhverfisstofnun.

Samkvæmt rjúpnatalningu í vor fækkaði rjúpum víðs vegar um landið og er stofninn í eða undir meðallagi alls staðar nema á Norðausturlandi. „Veiðimenn eru eindregið hvattir til að sýna hófsemi og eru sérstaklega beðnir um að gera hvað þeir geta til að særa ekki fugl umfram það sem þeir veiða,“ kemur fram í tilkynningunni.

Sölubann ríkir áfram

Sölubann er áfram við lýði þannig að óheimilt er að selja rjúpur eða rjúpnaafurðir sem kunna að veiðast. „Meginstefna stjórnvalda er að nýting rjúpnastofnsins skuli vera sjálfbær, sem og annarra auðlinda. Jafnframt skuli rjúpnaveiðimenn stunda hóflega veiði til eigin neyslu.“

Bannað verður að veiða á miðvikudögum og fimmtudögum í nóvember. Einnig er bannað að veiða á verndarsvæðum og er veiðimönnum bent á að kynna sér takmarkanir á veiðum á friðlýstum svæðum.