Samtökin Hard to Port deildu fyrr í kvöld mynd á Twitter sem sýnir starfsmenn Hvals hf. draga í burtu dautt fóstur langreyðar sem þeir höfðu veitt. Myndin hefur vakið hörð viðbrögð bæði erlendis og hér á landi. 

Samtökin hafa fylgst með hvalveiðum á Íslandi í nokkur ár. Aðilar þess hafa myndað hvalveiðarnar og deilt þeim með almenningi. Markmið samtakanna er að stuðla að gagnsæi í hvalveiðum með von um að veiðunum sloti.

Boðað var til samstöðuvöku fyrir langreyðar í kvöld á vegum Reykjavík Whale Save! Samstöðuvakan hófst klukkan hálf níu fyrir utan hvalveiðistöðina í Hvalfirði.

„Jafnvel þó að ólíklegt sé að verið sé að búta niður hval á þeim tíma sem samtöðuvakan er þá er samt mikilvægt að mæta og bera vitni fyrir utan starfsemi sem ber ábyrgð á svona mikilli grimmd, og til að beina sjónsviði fólks á þennan ofbeldisfulla og óréttmæta iðnað," segir í lýsingu samstöðuvökunnar á Facebook. 

Bandaríski aktívistinn, Dani Rukin, verður á staðnum og deilir rauntíma myndböndum á vef sínum en hún er með rúmlega milljón fylgjendur á samfélagsmiðlum. 

Arne Feuerhah, stendur á bak við samtökin Hard to Port og tók umrædda mynd fyrr í dag. Hann segir í samtali við Fréttablaðið að starfsmenn Hvals hf. hafi reynt að fela fóstrið fyrir honum þegar þeir sáu að hann var með myndavél. 

„Við höfum myndað flestar landanir langreyðanna. Ég var á vettvangi með myndavél í höndunum í dag. Það var augljóst að starfsmennirnir voru taugaóstyrkir þegar það kom að því að búta niður þetta tiltekna dýr. Þeir hikuðu og þegar þeir skáru upp neðri hluta dýrsins mátti sjá voru frekar stressaðir með að halda áfram þar sem þeir vissu að um kálffullan hval var að ræða. Þegar þeir skáru líknarbelginn opinn datt fóstrið úr honum og þrír starfsmannanna drifu sig að draga það inn í hvalstöðina,“ segir hann.

Arne hefur myndað hvalveiðarnar í allt sumar og segist vera orðinn dofinn fyrir því að sjá stóra hvali drepna og bútaða í sundur. Hann segir að atvikið hafi vakið hjá honum djúpa sorg og viðbjóð, það hafi verið virkilega átakanlegt að sjá kálfinn og móðurina í dag. 

„Þetta var skelfilegt, ég skalf í klukkutíma eftir að ég varð vitni af þessu atviki.“