Áhöfn Bergey VE veiddi ansi myndarlegan þorsk nýverið í Háfadýpinu. Þorskurinn er að sögn skipstjórans Jóns Valgeirssonar alls um 50 kíló og 1,80 metrar á lengd.

„Jú, við fengum óvenju stóran þorsk undir lok síðasta túrs í Háfadýpinu. Þetta var þorskur sem var um 50 kg. að þyngd og um 1,80 að lengd. Hann var gamall og virðulegur og hefur árum saman sloppið við net og troll,“ segir Jón í færslu á vef Síldarvinnslunnar sem á skipið.

Þar kemur fram að þeir hafi að mestu verið við veiði á Selvogsbankanum í túrnum en að þeir hafi skroppið í Háfadýpið rétt undir lokin.

„Það hefur verið alveg fínasta veiði og túrarnir eru ekki langir þegar fiskast svona. Núna erum við að toga í Háfadýpinu í leiðindaveðri. Það er austan 18- 20 metrar og verður þannig í dag. Síðan held ég að sé betra í kortunum. Aflinn hér er blandaður en þetta er allt mjög góður fiskur,“ segir Jón.

Í færslunni kemur enn fremur fram að Bergey VE og systurskip þess Vestmannaey VE hafi veitt mjög vel að undanförnu.