Kristján Þór Júlíus­son, sjávar­út­vegs- og land­búnaðar­ráð­herra, hefur undir­ritað reglu­gerð um veiðar á loðnu í sam­ræmi við ráð­gjöf Haf­rann­sókna­stofnunar. Eftir mælingar á loðnu­stofninum í síðustu viku veitti Haf­rann­sókna­stofnun ráð­gjöf um veiðar á allt að 61.000 tonnum af loðnu á ver­tíðinni 2020/2021. Er það aukning um 39.200 frá fyrri ráð­gjöf.

„Það er mjög á­nægju­legt að tekist hafi að af­stýra að loðnu­brestur myndi raun­gerast þriðja árið í röð. Þetta er vissu­lega ekki mikið magn en sú stað­reynd að ís­lensk skip munu nú halda til veiða á loðnu er skref í rétta átt. Leitin heldur á­fram af fullum þunga og í dag bætast þrjú skip við í þá leit. Það er enda mikið í húfi fyrir við­spyrnu efna­hags­lífsins að loðnu­ver­tíðin verði eins öflug og kostur er,“ segir Kristján Þór Júlíus­son, sjávar­út­vegs- og land­búnaðar­ráð­herra, í til­kynningu.

Ráð­herra greindi ríkis­stjórninni frá þessu á fundi í morgun. Í til­kynningu frá ráðu­neytinu segir að á fundi ríkis­stjórnarinnar hafi hann einnig greint frá því að rann­sókna­skip Haf­rann­sókna­stofnunar, Árni Frið­riks­son, hafi farið af stað til mælinga síðast­liðinn sunnu­dag. Í dag fara þrjú skip frá út­gerðum loðnu­skipa til loðnu­leitar og því munu sam­tals fjögur skip sinna mælingunum næstu daga. Auk þess eru tvö loðnu­skip til við­bótar til­búin að koma að verk­efninu ef þörf verður á.

Þá segir að veður­spá næstu daga, auk spár um dreifingu haf­íss úti fyrir Vest­fjörðum, gefi vonir um að það takist að fara yfir rann­sókna­svæðið og að mæla stofninn að nýju á næstu dögum. Á­hersla verður lögð á svæðið úti fyrir norðan­verðum Aust­fjörðum, fyrir Norður­landi og Vest­fjörðum en ekki hefur tekist að kanna þau svæði síðustu vikur sökum ó­veðurs og haf­íss úti fyrir Vest­fjörðum.