Vegvísun fyrir hjólreiðafólk og gangandi vegfarendur er nú orðin aðgengileg á kortavef Já.is. Í tilkynningu frá fyrirtækinu kemur fram að stungið sé upp á fljótförnustu leiðinni á milli tveggja staða með tilliti til hæðabreytinga í landslagi og yfirborði vegar.

Þá segir að notendur geti valið úr fjórum mismunandi leiðum ef þær eru í boði.

„Við höfum til margra ára boðið upp á vegvísun fyrir akandi vegfarendur, en undanfarið höfum við fundið fyrir vaxandi áhuga fólks á vegvísun fyrir umhverfisvænni ferðamáta. Því erum við ákaflega glöð að geta boðið hjólandi og gangandi vegfarendum upp á bestu leiðina á ferð sinni um borg og bý,“ segir Anna Berglind Finnsdóttir verkefnisstjóri hjá Já.

Aðeins verður í boði að nýta vegvísunina á Já.is vefnum í fyrstu en samkvæmt tilkynningunni mun hún bætast við appið síðar.