Vegagerðin mun leggja nýtt malbik yfir kafla á Kjalarnesi á mili Grundarhverfis og Hvalfjarðarganga um leið og aðstæður leyfa.

Tveir létust í árekstri mótor­hjóls og hús­bíls á Vestur­lands­vegi á Kjalarnesi í gær.

Stjórnarmeðlimur Snigla segir þennan vegarkafla vera flughálan og hættulegan og hefur verið boðið til mótmæla fyrir framan Vegagerðina á morgun. Vega­gerðin hefur hafið út­tekt á ný­mal­bikuðum vegar­kafla á Vestur­lands­vegi á Kjalar­nesi þar sem bana­slys átti sér stað.

Líkt og Frétta­blaðið hefur fjallað um var téður vegar­kafli mjög háll og sagði Ás­­geir Þór Ás­­geirs­­son, yfir­­lög­­reglu­­þjónn, meðal annars að vegurinn hafi verið eins og skauta­svell þegar hann lýsti slysstað.

Hálli er kröfur eru gerðar um

Vegagerðin mældi vegarkaflann í morgun og reyndist hann mun hálli en kröfur eru gerðar um af Vegagerðinni. Sama eigi við um kafla við Gullinbrú í Reykjavík, sá kafli verður fræstur og endurlagður. Aðrir kaflar sem gætu verið of hálir verða skoðaðir og lagfærðir ef þörf reynist á.

„Hraði hefur verið tekinn niður á þessum köflum og verður fylgst með viðnáminu og leyfilegur hraði hækkaður þegar aðstæður leyfa. Þekkt er að nýlagt malbik er hálla í byrjun en jafnar sig nokkuð hratt. Í tilvikum sem hér um ræðir er viðnámið hinsvegar þannig að ekki verður við unað og því er brugðið til þess ráðs að leggja nýtt malbik yfir,“ segir í tilkynningu frá Vegagerðinni.

Vegagerðin mun héðan í frá setja reglu um lækkun hraða við kafla með nýlagt malbik. Hraðinn verði ekki hækkaður fyrr en viðnámið sé ásættanlegt. Skilti verði sett upp þannig að ekki fari á milli mála að mögulega sé malbik hálla en alla jafna og þá sérstaklega í miklum hita og/eða rigningu. 

„Vegfarendur eru hvattir til að aka varlega og hafa í huga að næstu daga er spáð miklum hita og skúrum og aðstæður geta því fljótt breyst til hins verra.“