Pétur Guðmundsson frá Ófeigsfirði hefur lokað veginum að Hvalá á Ströndum með því að leggja dráttarvél þvert yfir hann. Þetta gerir hann í óþökk Vegagerðarinnar og ferðafólks sem fer þar um til þess að virða fyrir sér fegurð fossanna upp af Ófeigsfirði.

„Þessi vegur liggur yfir gamalt tún og þetta eru gömlu kerruförin eftir kerruna sem Blesi gamli dró í gamla daga,“ segir Pétur í samtali við Fréttablaðið. „Orkustofnun lagði veg þarna inn eftir en svo voru bara kerruförin látin duga og ég er bara búinn að fá upp í háls af helvítis hyski. Ég verð bara að segja það.

Pétur segist hvergi ætla að gefa eftir en Vegagerðin hefur gert athugasemd við vegartálmann. „Ég ætla að fara að sortera það sem fer þarna norður. Þeir eru að fara eftir túni þarna hjá okkur og það er enginn samningur um að vegurinn eigi að liggja þarna enda er búið að teikna veg fyrir ofan túnið,“ segir Pétur sem vill vita nákvæmlega hverjir eru þarna á ferðinni.

„Þetta fólk sem kemur þarna getur bara komið heim og þá bara ræði ég við það og þeir sem eru mér þóknanlegir geta fengið að fara þarna norður. Hyskið hefur ekkert þarna að gera.“

Dráttarvélin fer hvergi

Jón Hörður Elíasson, rekstrarstjóri hjá Vegagerðinni, hefur farið á vettvang og segir unnið að lausn málsins.

„Það er einhver dráttarvél að þvælast þarna fyrir á óheppilegum stað,“ segir hann við Fréttablaðið. „Þetta er náttúrlega vegur sem er á vegaskrá og það er bara verið að vinna að því að leysa málið.“

Enginn sáttatónn er hins vegar í Pétri. „Þetta getur nú ekki kallast þjóðvegur og þá fer ég nú að fara fram á að þeir lagi hann. Ég þurfti að skreppa suður og ég bannaði konu og börnum að hreyfa við dráttarvélinni. Hún verður ekki hreyfð.“

En finnur hann fyrir miklum ágangi og ónæði af ferðafólki?

„Ég er bara orðinn þreyttur á þessu liði. Þetta eru ekki nema örfáir menn sem ég myndi loka á. Þeir hafa ekkert þarna að gera,“ segir hann.

Logið í heimskan lýðinn

„Þetta er ómerkilegt fólk, ef ég segi það alveg eins og er. Ómerkilegt fólk sem getur ekkert gert annað en ljúga og nýtur þess að það eru þónokkuð margir sem trúa þessu bulli í þeim. Og þeir eru bara að gera þetta til þess að auglýsa sjálfa sig. Þetta er athyglisjúkt hyski.

Það er búið að ljúga svo miklu um þessa framkvæmd þarna. Hamra á þessu og heimskur lýðurinn trúir þessu. Það er hamrað á því að það þurfi enga orku á Vestfirði og það er kjaftæði. Það vantar orku þangað og hún kemur ekki annars staðar frá en frá Hvalá.“