Kristín Völundar­dóttir, for­stjóri Út­lendinga­stofnunar, gagnrýnir aðferðir nýrrar herferðar samtakanna Réttur barna á flótta í pistli sem hún skrifaði og var birtur á visir.is í dag. Hún segir nýtt átak sam­takanna vega að æru og heiðar­leika starfs­fólks stofnunarinnar. Hún segir það bæði „smekk­laust og ó­fyrir­leitið“ að níða skóinn af þeim eins og gert í mynd­böndum sem fylgja á­takinu.

Gerir athugasemd við myndböndin

Sam­tökin Réttur barna á flótta hófu átak í vikunni þar sem þess er krafist að stjórn­völd hætti að vísa börnum frá landi. Til stuðnings á­takinu hafa veri fram­­leidd stutt mynd­bönd með Bene­dikt Er­lings­­syni og Hall­­dóru Geir­harðs­dóttur í aðal­­hlut­­verkum. Fyrsta mynd­bandið var birt á mánu­dag og annað í dag. Sam­tökin segja mynd­böndin „graf­al­var­­legt grín þar sem skot­­spónunum er beint að Út­­lendinga­­stofnun og kæru­­nefnd út­­lendinga­­mála.“

Kristín gefur ekki mikið fyrir mynd­böndin í pistli sínum. Hún segir til­gang þeirra vera að „slá upp spaugi­legri mynd af störfum starfs­fólks Út­lendinga­stofnunar í þágu á­taksins“. Það sé gert til að koma á fram­færi gagn­rýni á með­ferð mála þessa hóps.

„Það er gott og vel en ekki er hægt að láta hjá líða að gera at­huga­semdir við nálgun á­taksins. Í mynd­böndum sam­takanna er vegið gróf­lega að æru og heiðar­leika starfs­fólks Út­lendinga­stofnunar og því gefið að sök að fylgja annar­legum sjónar­miðum í sínum störfum og að virða ekki þau lög og reglur sem þeim ber að fara eftir,“ segir Kristín í pistli sínum.

Reynt að hafa áhrif á vinnubrögð og ímynd starfsfólks

Hún segir eitt að hafa skoðun á því hvernig lög og reglur eru og hvernig þau eru fram­kvæmd, eða hvort fram­kvæmdin tryggi mark­mið sem sett eru fram í lög­gjöf.

Það er eitt að hafa skoðun á því hvernig lög og reglur eru hér á landi og eftir at­vikum hvort fram­kvæmd þeirra tryggi þau mark­mið sem sett eru fram í lög­gjöf.

„En að níða skóinn af því starfs­fólki sem vinnur við þennan krefjandi mála­flokk á hverjum degi er vægast sagt smekk­laust og ó­fyrir­leitið,“ segir Kristín.

Hún segir að með því að beina spjótum sínum að starfs­fólki, þó að það sé undir því yfir­skini að um grín sé að ræða, sé með þessu reynt að hafa á­hrif á vinnu­brögð starfs­fólk og þá í­mynd sem al­menningur hefur af þeim sem starfi við þennan mála­flokk.

„…í þeim til­gangi væntan­lega að þeir skammist sín fyrir að fara eftir sinni bestu sann­færingu í störfum sínum við fram­kvæmd laga og reglna,“ segir Kristín.

Hún segir að lokum að mál­efna­legra væri að beina gagn­rýni á þau sem fari með stjórn mála­flokksins og hand­höfum lög­gjafar­valdsins og að það væri gert með „á­reiðan­legum upp­lýsingum og hóf­stilltri orð­ræðu.“

Hér að neðan má sjá nýjasta myndband átaks samtakanna Réttur barna á flótta.