Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra lýsir yfir áhyggjum af stöðu mála í Hong Kong en dagblaðið Apple Daily hefur lagt upp laupana eftir ítrekaðar ofsóknir lögreglu. Dagblaðið prentaði seinasta eintak blaðsins í morgun. Það neyðist til að hætta starfsemi eftir áhlaup lögreglu á ritstjórnarskrifstofu þess, handtökur stjórnarmanna og blaðamanna og frystingu eigna.

Guðlaugur segir íslensk stjórnvöld fylgjast grannt með gangi mála. „Þessar nýjustu fréttir valda áhyggjum og eru merki um að enn sé verið að þrengja að frelsi íbúanna,“ segir hann. Hefur Ísland ítrekað lýst áhyggjunum á alþjóðavettvangi og í tvíhliða samskiptum við Kína auk þess að taka undir yfirlýsingar á vegum ESB og í mannréttindaráði SÞ.

Sigríður Dögg Auðunsdóttir formaður Blaðamannafélags Íslands tekur í sama streng og Guðlaugur og segir félagið fordæma aðgerðir stjórnvalda í Hong Kong. „Þetta er fjölmiðill sem hefur haldið uppi hvað gagnrýnustu umræðunni um stjórnvöld og er núna þvingaður til að loka og búið að handataka stjórnendur,“ segir Sigríður Dögg.

„Blaðamannafélag Íslands mun að sjálfsögðu gera allt í valdi félagsins til að vekja athygli á því sem er í gangi þarna og í fleiri löndum þar sem svona vinnubrögð og viðhorf ríkja og frelsi fjölmiðla er skert eða ekkert,“ segir Sigríður.

BÍ er hluti af Alþjóða blaðamannasambandinu (IFJ) sem hefur einnig fordæmt handtökurnar og farið fram á að starfsfólk blaðsins verði sleppt úr haldi umsvifalaust. Í yfirlýsingu sambandsins segir þetta vera ósvífna árás á rödd sjálfstæðis og lýðræðis í Hong Kong sem sýni hve langt ríkistjórnin sé tilbúin að ganga til að þagga niður í gagnrýnni blaðamennsku. „Blaðamennska er ekki glæpur,“ segir að lokum.

Sögð hafa brotið umdeild öryggislög

Apple Daily hefur verið starfandi í 26 ár og þykir vera táknmynd lýðræðishreyfingarinnar í Hong Kong. Blaðið og stofnandi þess, Jimmy Lai, hafa gjarnan staðið uppi í hárinu á ríkisstjórn og lögreglu landsins.

Í seinustu viku gerði öryggislögregla áhlaup á ritstjórnarskrifstofu blaðsins. Yfir fimm hundruð lög­reglu­menn tóku þátt í á­hlaupinu og hand­tóku fimm stjórn­endur, þar á meðal fram­kvæmda­stjórann, Cheung Kim-hung, og aðal­rit­stjórann, Ryan Law.

Tölvur og harðir diskar voru gerðir upptækir í á­hlaupinu og 2,3 milljónir dala af fjár­munum blaðsins frystar.

Stjórnendum blaðsins er gert að hafa brotið öryggislög um samráð við erlendar þjóðir eða öfl gegn þjóðaröryggi. Því er haldið fram að blaðið hafi birt 30 greinar sem hvöttu erlend ríki til að beita höftum gegn ríkisstjórnum Kína og Hong Kong.

Lögin sem um ræðir tóku gildi í júní 2020 en greinarnar birtust á tímabili sem nær til ársins 2019. Carrie Lam, leiðtogi heimastjórnar Hong Kong, sagði við mannrétt­inda­ráð Sameinuðu Þjóðanna að lögin yrðu ekki afturvirk en það virðist þó ekki hafa verið raunin.

Frá því lögin tóku gildi hafa þau verið nýtt til að handataka rúmlega hundrað lýðræðissinna, samkvæmt tölum Alþjóðablaðamannasamtakanna (IFJ).

Stofnandi blaðsins, Jimmy Lai, var handtekinn í ágúst í fyrra vegna meintra brota á þessum lögum með því að taka þátt í mótmælum til stuðnings lýðræði árið 2019. Í apríl á þessu ári var hann dæmdur í fjórtán mánaða fangelsi.

Helsti leiðarahöfundur blaðsins, sem skrifar undir nafninu Li Ping, var einnig handtekinn í gærmorgun á staðartíma fyrir meint samráð við erlend öfl. Brotin voru rekin til greinaskrifa hans en þrátt fyrir að ekki komi fram hvaða greinar um ræðir kemur fram að einhverjar þeirra hafi verið birtar árið 2019.

Eftir handtöku Li Ping var ákveðið að flýta lokun blaðsins en stefnt var að hætta starfsemi um helgina.