Skiltamálun Reykjavíkur og Nýja stjórnarskrárfélagið hafa nú komið upp nýju vegglistaverki með áletruninni „Hvar er nýja stjórnarskráin“ eftir að upprunalega verkið var fjarlægt í gær.

Nýja verkið er stutt frá því fyrra, við Sjávarútvegsráðuneytið, nema nú er áletruninni á aftari vegg bílaplansins.

Það vakti mikla athygli landsmanna þegar upprunalega vegglistaverkið var fjarlægt í gær eftir að hafa aðeins staðið í rúmlega tvo sólarhringa. Veggurinn sem hýsti verkið hafði um árabil verið vinsæll strigi fyrir hina ýmsu list og krot.

Bannað að spyrja

Áletrunin var fjarlægð að beiðni Rekstrarfélags stjórnarráðsins í gær og hefur ekki borist skýring á því hvers vegna þetta verk var fjarlægt en ekki önnur sem stóðu þar á undan.

Katrín Odds­dóttir, ötull tals­maður nýrrar stjórnar­skrár, spurði hvort ekki mætti spyrja slíkra spurninga hér á landi og velti fyrir sér hvers vegna áletrunin var fjarlægð svo skjótt.

Aldrei meiri stuðningur

Veggjaþvotturinn virðist þó ekki hafa skilað sér í öðru en holskeflu undirskrifta til stuðnings herferðar um nýja stjórnarskrá. Nærri 32 þúsund manns hafa nú skrifað undir. Aldrei hafa jafn margar undirskriftir safnast í álíka herferð hér á Íslandi fyrr.

Nýjustu mælingar MMR á afstöðu til málefnisins sýna einnig að aldrei hafa fleiri viljað nýja stjórnarskrá en nú. Um sextíu prósent landsmanna sögðust vilja fá nýja sjórnarskrá á yfirstandandi kjörtímabili en hlutfallið hefur ekki verið hærra síðan mælingar MMR hófust.

Verkið stóð áður á vegg sem var staðsettur nær Sæbrautinni.