Það er al­gengara en fólk gerir sér grein fyrir að veggjalús finnist á ís­lenskum heimilum. Að sögn mein­dýra­eyðisins Steinars Smára Guð­bergs­sonar hefur til­fellum fjölgað eftir að Co­vid-19 far­aldrinum lauk, enda fólk aftur komið á ferð og flug um heim allan.

Um helgina var greint frá lúsa­gang á heimili Hrannar Hjál­mars­dóttur, íbúa í Grafar­vogi. Líklega fylgdu pöddurnar henni heim eftir ferðalag í Frakklandi.

„Einn sá mesta við­bjóður sem við höfum nokkurn­tíman séð innan­dyra,“ sagði Hrönn þegar hún og fjöl­skylda hennar fundu heilt vist­kerfi af veggjalúsum og þúsundum eggjum sem áttu eftir að klekjast út.

„Það má alveg reikna með því að fólk lendi í þessu. Sér­stak­lega ef fólk ferðast mikið Þetta eru hótelin, bæði hérna heima og úti, sumar­bú­staðir og AirBnB til að mynda. Fólk er að pikka þetta upp á þessum stöðum. Fólk pakkar nokkrum pöddum ó­vart með og koma með þær á heimilið sitt,“ segir Steinar.

Ef fólk lendir í biti, þá þarf að taka því al­var­lega að sögn Steinars.

„Þegar þú ert bitinn þar sem þú ert að gista, hvort sem það er á Ís­landi eða í út­löndum, þá þarftu að taka því al­var­lega. Þú verður að hafa hug á því að þetta sé veggjalús, ekki eitt­hvað húð­vanda­mál eða of­næmi eins og margir halda þegar þeir lenda í biti. Fólk þarf að passa að koma ekki með þetta heim,“ segir Steinar.

Það vilja fæstir fá þessa pöddu í heimsókn.
Meindýraeyðir Íslands.

Mikill aukning eftir Co­vid

Steinar segir að þótt veg­glúsin valdi ekki skemmdum á heimilis­munum, þá getur hún haft nei­kvæð and­leg á­hrif á fólk.

„Það leggst á sálina hjá fólki, vitandi af ein­hverri pöddu sem ræðst á þig á nóttunni þegar þú ert sofandi. Það er hræði­legt,“ segir Steinar og bætir við ekki er vitað til þess að veg­glúsin beri sjúk­dóma á milli fólks. Steinar segir þó að ein­hverjar rann­sóknir bendi til þess.

Þegar Co­vid far­aldurinn hófst fækkaði til­fellum um veggjalús á ís­lenskum heimilum.

„Þetta var nokkuð al­gengt fyrir Co­vid, en á meðan far­aldurinn hélt öllum heima þá dalaði þetta að­eins. Fólk var að ferðast minna og þá var veg­glúsin ekki að ná að húkka far til Ís­lands. En eftir Co­vid hófst önnur bylgja, eigin­lega meira en fyrir veiruna skæðu,“ segir Steinar.