Það er algengara en fólk gerir sér grein fyrir að veggjalús finnist á íslenskum heimilum. Að sögn meindýraeyðisins Steinars Smára Guðbergssonar hefur tilfellum fjölgað eftir að Covid-19 faraldrinum lauk, enda fólk aftur komið á ferð og flug um heim allan.
Um helgina var greint frá lúsagang á heimili Hrannar Hjálmarsdóttur, íbúa í Grafarvogi. Líklega fylgdu pöddurnar henni heim eftir ferðalag í Frakklandi.
„Einn sá mesta viðbjóður sem við höfum nokkurntíman séð innandyra,“ sagði Hrönn þegar hún og fjölskylda hennar fundu heilt vistkerfi af veggjalúsum og þúsundum eggjum sem áttu eftir að klekjast út.
„Það má alveg reikna með því að fólk lendi í þessu. Sérstaklega ef fólk ferðast mikið Þetta eru hótelin, bæði hérna heima og úti, sumarbústaðir og AirBnB til að mynda. Fólk er að pikka þetta upp á þessum stöðum. Fólk pakkar nokkrum pöddum óvart með og koma með þær á heimilið sitt,“ segir Steinar.
Ef fólk lendir í biti, þá þarf að taka því alvarlega að sögn Steinars.
„Þegar þú ert bitinn þar sem þú ert að gista, hvort sem það er á Íslandi eða í útlöndum, þá þarftu að taka því alvarlega. Þú verður að hafa hug á því að þetta sé veggjalús, ekki eitthvað húðvandamál eða ofnæmi eins og margir halda þegar þeir lenda í biti. Fólk þarf að passa að koma ekki með þetta heim,“ segir Steinar.

Mikill aukning eftir Covid
Steinar segir að þótt vegglúsin valdi ekki skemmdum á heimilismunum, þá getur hún haft neikvæð andleg áhrif á fólk.
„Það leggst á sálina hjá fólki, vitandi af einhverri pöddu sem ræðst á þig á nóttunni þegar þú ert sofandi. Það er hræðilegt,“ segir Steinar og bætir við ekki er vitað til þess að vegglúsin beri sjúkdóma á milli fólks. Steinar segir þó að einhverjar rannsóknir bendi til þess.
Þegar Covid faraldurinn hófst fækkaði tilfellum um veggjalús á íslenskum heimilum.
„Þetta var nokkuð algengt fyrir Covid, en á meðan faraldurinn hélt öllum heima þá dalaði þetta aðeins. Fólk var að ferðast minna og þá var vegglúsin ekki að ná að húkka far til Íslands. En eftir Covid hófst önnur bylgja, eiginlega meira en fyrir veiruna skæðu,“ segir Steinar.