„Við erum stundum að ræða það að Grafaravogurinn sé farinn að minna á miðborgina í veggjakroti þar sem ástandið er auðvitað svakalegt,“ segir Árni Guðmundsson, fulltrúi íbúasamtaka í íbúaráði Grafarvogs, en ráðið ræddi um veggjakrot á fundi sínum á miðvikudag.

Var varaformanni ráðsins falið að skrifa umhverfis- og skipulagssviði borgarinnar bréf þar sem borgaryfirvöld eru hvött til að bregðast við vandamálinu.

Árni segir að ástandið hafi farið versnandi undanfarin ár og vill fá borgina að borðinu sem og önnur íbúaráð enda sé veggjakrot yfirleitt allt annað en fallegt.

„Við viljum virkja almenning í að tilkynna þegar hann sér svona athæfi og skorum á borgaryfirvöld að bregðast við helst samdægurs. Helst þyrftum við að ná í skottið á þeim sem eru að gera þetta þannig að viðkomandi geti fengið fræðslu og betrun.Þetta eru auðvitað ekkert annað en skemmdarverk, þetta er ekki skemmtun eða list. Þetta eru alvarleg skemmdarverk á eigum borgarinnar og einkaaðila.“

Veggjakrotararnir eru búnir að láta til skara skríða undir Gullinbrú
mynd/Heimir Snær Guðmundsson

Borgin skar upp herör gegn veggjakroti í upphafi aldarinnar með Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur borgarstjóra í broddi fylkingar og lét 25 milljónir í þrif á veggjakroti í fyrra.

Árna finnst það þó duga skammt og vill fá borgina með sér í lið.

„Staðan er þannig hér að Grafarvogsbrúin er orðin útkrotuð. Í kringum skíðalyftuna er ástandið svakalegt. Það er skúr við Strandveg, sem er aðstaða fyrir matjurtagarða, sem er ítrekað skemmdur og krotaður.“

Í afbrotatölfræði lögreglunnar má sjá að í júlí á síðasta ári fjölgaði tilkynningum um veggjakrot mikið en ekki höfðu borist jafn margar tilkynningar um veggjakrot síðan í ágúst 2018.

Árni segir að næstu skref séu að setja sig í samband við borgina og fleiri íbúaráð til að snúa vörn í sókn gegn þessum vágesti veggjanna.

„Borgaryfirvöld virðast ekki lengur líta á þetta sem skemmdarverk og það er það sem við viljum breyta. Þetta er í fleiri hverfum en við erum að einblína á okkar hverfi núna. Byrjum þar og fáum vonandi fleiri að borðinu,“ segir Árni.