Veg­far­endur sem komu að slysstað í Skötu­firði, þar sem jepp­lingur með þremur um borð hafði farið út af veginum og endað í sjónum, unnu ó­trú­legt þrek­virki þegar þeir komu fólkinu úr bílnum og í land. Þetta segir Rögn­valdur Ólafs­son, hjá al­manna­vörnum, í sam­tali við Frétta­blaðið. Hann segir of snemmt að segja til um hvort það verði í lagi með fólkið sem lenti í slysinu; slysið sé þó mjög al­var­legt.

„Það komu veg­far­endur að bílnum, sem hafði hafnað úti í sjó, og þeir komu fólkinu úr bílnum og á þurrt land,“ segir Rögn­valdur. „Þeir voru svo að vinna í þessu, veita fólkinu skyndi­hjálp og annað þar til fyrstu við­bragðs­aðilar komu á svæðið.“

Björgunar­skip frá bæði Ísa­firði og Bolungar­vík voru ræst út eftir að sam­hæfingar­mið­stöð al­manna­varna var virkjuð vegna slyssins. Á vett­vangi eru nú björgunar­sveitir, lög­regla og slökkvi- og sjúkra­lið en enn er beðið eftir að tvær þyrlur Land­helgis­gæslunnar lendi á slysstað. Rögn­valdur segist gera ráð fyrir því að ein­hverjir verði fluttir með þyrlunum á spítala, en getur ekki full­yrt neitt um það á meðan hann veit ekki um á­stand fólksins.

Mikil hálka á veginum

Hann segir að­stæður á slysstað mjög erfiðar, þær séu langt frá þétt­býli og að gríðar­leg hálka sé á veginum. Hann segir ó­ljóst hvers vegna bíllinn fór út af en telur ekki ó­lík­legt að hálkan gæti þar hafa spilað inn í.

Skötu­fjörður er á norðan­verðum Vest­fjörðum, í um klukku­stundar aksturs­fjar­lægð austur af Ísa­firði.