„Ég á mjög erfitt með að skilja hvernig mannverur geta borðað vini sína,“ segir einn meðlimur í Facebook-hópnum Vegan Ísland. TIlefnið er fyrirhuguð árleg hrossakjötsveisla Limsfélagsins. Limsfélagið er hestamannafélag.

Helgi Sigurjónsson er einn af þeim sem að veislunni stendur. Hann segir ekki algilt að hestamenn borði hrossakjöt. „Það eru ekkert allir hestamenn sem borða hrossakjöt. Ekkert frekar en margir trúarhópar. Það eru til hestamenn sem flokka það undir dýravelferð og borða ekki vini sína, eins og sagt er,“ segir Helgi um þessa umræðu.

Veislan verður í félagsheimili Fáks á laugardagskvöldið. „Galdraðir verða fram gómsætir réttir sem fara vel í maga og aðrir sem renna ljúlega í eyru.,“ segir í auglýsingu á vef Fáks.

„Hvílík hræsni“

Sú sem vekur athygli á viðburðinum á Facebooksíðunni Vegan Ísland segist ekkert geta hugsað sér ógeðslegra en hestamannafélag að auglýsa hrossakjötsveislu. „Hestamenn segja að hrossin seu vinir sínir en svo geta þeir kjamsað a þessu. I dont get it.“

Ljóst má vera að fleiri í hópnum eru sömu skoðunar. „Hvílík hræsni... hélt í fyrstu að þetta ætti að vera einhvers konar brandari,“ segir einn meðlimurinn. „Fólk sem getur hugsað sér þetta hefur enga samvisku fyrir mér,“ skrifar annar.

Einn bendir þó á að þetta sé sambærilegt og sauðfjárbóndi sem borði lambakjöt eða kúabóndi sem boði nautakjöt. „Samt finnst mér af einhverjum ástæðum undarlegra að hestamenn borði hrossakjöt.“

Lifðu á hrossakjöti

Helgi bendir á að Íslendingar hafi borðað hrossakjöt öldum saman, ekki síst af nauðsyn. „Við höfum lifað á þessu í gegn um aldirnar.“ Hann segir að veislan sé jafnan mjög vel sótt af hestamönnum og að hann líti svo á að það að borða reykt og saltað hrossakjöt sé ekkert frábrugðið því að borða lambakjöt.

Hann bendir líka á að vaxandi atvinnurekstur sé af blóðtöku úr fylfullum hryssum, afurð sem notuð sé til lyfjaframleiðslu. Segja megi að hrossakjöt sé hlðarafurð af þeirri búgrein. 

Helgi segist ekki vera á Facebook en að hann heyri þó sífellt hærri umræðu um veganisma. „Það er talað um að hún sé farin að ógna kjötframleiðslu í landinu. Maður heyrir það, svona innan um,“ segir hann og spyr hvort sá verði ekki svangur í hvelli sem ekki neyti kjöts eða fisks. „Það er ekki nokkur orka í þessu,“ segir hann en viðurkennir að hann sé ekki vel að sér um lífstílinn.

Sjá einnig: Setti tvö Íslandsmet: „Ekkert kjöt, engin mjólk, engin egg“