Helmingur vegan foreldra hefur fundið fyrir fordómum gagnvart veganisma í skólakerfinu og ⅔ vegan foreldra finna fyrir kvíða í tengslum við fæðuframboð í skólum. Þetta kemur fram í niðurstöðum könnunar sem Samtök grænkæra framkvæmdu í Veganúar meðal vegan foreldra á Íslandi. Samtökin segja að það sé ljóst að mikilla úrbóta er þörf í skólakerfinu til þess að bæta úr aðstæðum vegan barna.

„Það er sérstaklega mikilvægt að sporna gegn þeim fordómum sem börnin mæta. Að auki er mikilvægt að maturinn standist almennar kröfur Embættis landlæknis um næringu og fjölbreytni,“ segir Vigdís Fríða Þorvaldsdóttir sem situr í stjórn samtakanna.

Samtökin söfnuðu saman í tilefni af Veganúar 2022 reynslusögum vegan foreldra varðandi viðhorf skólakerfisins til veganisma. Alls svöruðu 110 vegan foreldra á Íslandi könnun en samkvæmt niðurstöðunum neyðast sum börn til þess að borða kjöt í skólanum þvert á sinn eigin vilja. Þá hefur í einhverjum tilfellum foreldrum þeirra verið bannað að nesta barnið sitt.

Spurð hvort niðurstöðurnar hafi komið henni á óvart segir Vigdís Fríða svo ekki vera.

„Þetta staðfesti þann grun sem maður hefur haft í þessum málum,“ segir Vigdís Fríða og að það hafi ekkert endilega í niðurstöðunum komið henni á óvart.

„Samtök grænkera á Íslandi hafa barist ötullega fyrir því undanfarin ár að börn sem kjósa að vera vegan, hafi það val í skólum landsins. Veganismi er lífsskoðun og að okkar mati eiga börn, líkt og aðrir, að hafa rétt til þess að velja sjálf hvort þau neyti dýraafurða eða ekki,“ segir Vigdís Fríða og telur að innan skólakerfisins sé þörf á því að rétta þá skoðun að veganismi sé mataræði eða einhvers konar kúr.

Finna fyrir fordómum og kvíða

Þá kemur fram í niðurstöðunum að vegan börn finni iðulega fyrir fordómum og kvíða.

Ef boðið er upp á vegan mat þá kom í ljós í könnuninni að hann er oft á tíðum einsleitur og næringarsnauður. Það getur þá verið boðið upp á sama buffið oft í viku eða sama meðlætið.

Vigdís segir að hennar tilfinning sé sú að margir séu að bíða eftir því að búin sé til uppskriftabók fyrir stærri mötuneyti.

„Landlæknir hefur gefið út leiðbeiningar en ekki uppskriftabók fyrir skólana. En landlæknir er klárlega búinn að viðurkenna þennan rétt vegan barna í skólum og það kom til dæmis fram á Barnaþinginu árið 2019 að þau vilja meira grænmetisfæði í skólum. Ákallið er til staðar en fólk kannski veit ekki hvert það á snúa sér,“ segir Vigdís Fríða.

Hún segir að töluverður munur hafi verið á milli sveitarfélaga en viðurkennir að það geti verið erfiðara fyrir smærri sveitarfélög að finna leiðir til að leysa þetta og telur að stærri sveitarfélögin verði að leiða þessa breytingar.

Hér að neðan má sjá athugasemdir foreldra og sögur úr könnuninni.

„Ég fékk beinlínis „ohh ég er orðin svo leið á þessu umræðuefni“ sem svar í foreldraviðtali þegar ég var mjög sakleysislega að spyrja út í hvort ég mætti nesta barnið mitt í skólann á þeim dögum sem kjötvörur væru í boði. Og fékk einnig til baka „fræðslu“ um það að kjötvörur væru nú bara hollar og góðar og að það væri bara „venjulegur hollur heimilismatur“.

„Veit ekki hvort það flokkast sem fordómar en stundum fær dóttir mín ekki að borða því hún „gleymdist“ og ef það er kjöt á öllum samlokum eða pizzum í ferðum (þar sem var lofað að allir fengju að borða) er henni sagt að „týna bara af“ sem hún hefur að sjálfsögðu ekki lyst á.“

„Barninu mínu var sagt að það þyrfti kjöt til að verða sterkt.“

„Barnið mitt fær bara meðlæti þegar það er kjöt í boði. Stjórnendur skólans taka skýra afstöðu og neita að koma til móts við okkar óskir og næringarþarfir barnsins.“