Vegagerðin var í gær sýknuð af kröfum sex landeigenda í Hornafirði vegna eignarnáms í tengslum við breytingar á Þjóðvegi 1. Málið er búið að taka langan tíma og er ekki lokið enn.

Samið var við tugi landeigenda vegna breytingarinnar, sem tengist gerð nýrrar brúar yfir Hornafjarðarfljót. Ellefu neituðu hins vegar að semja og gert var eignarnám á hluta jarða þeirra og bætur ákveðnar 76 milljónir samanlagt.

Sex töldu eignarnámið ólöglegt og höfðuðu málið, sem var tekið fyrir árið 2020. Töldu þau þá vegleið sem Vegagerðin vildi upphaflega, númer 1, bæði ódýrari og umhverfisvænni. Sveitarfélagið Hornafjörður hafi hins vegar viljað þá vegleið sem á endanum var valin, númer 3b, til þess að stytta leiðina inn að Höfn. Málsvörn Vegagerðarinnar var hins vegar sú að leið 3b væri öruggari.

Helgi Sigurðsson, dómari í Héraðsdómi Reykjavíkur sem kvað upp dóminn, viðurkenndi að málið væri gríðarlega matskennt. „Þetta er mál sem á ábyggilega heima á æðra dómstigi,“ sagði hann við landeigendur eftir uppkvaðningu. Þá var allur málskostnaður látinn niður falla.

Fari svo að málinu verði ekki skotið til æðri dómstóls á að minnsta kosti eftir að útkljá gagnstefnu Vegagerðarinnar gegn landeigendunum. En Vegagerðin vill að eignarnámsbæturnar verði lækkaðar.

Í umfjöllun Fréttablaðsins þann 13. nóvember árið 2020 kom fram að Vegagerðin hefði talið landsvæðið of stórt og of hátt metið af matsnefnd. Einnig hefði rask af framkvæmdum verið lítið. ■