Vega­gerðin hefur hafið út­tekt á ný­mal­bikuðum vegar­kafla á Vestur­lands­vegi á Kjalar­nesi þar sem bana­slys átti sér stað í gær. Líkt og Frétta­blaðið hefur fjallað um var téður vegar­kafli mjög háll og sagði Ás­­geir Þór Ás­­geirs­­son, yfir­­lög­­reglu­­þjónn, meðal annars að vegurinn hafi verið eins og skauta­svell þegar hann lýsti slysstað.

Tveir létu lífið eftir að mótor­hjól lenti í á­rekstri við hús­bíl og er einn á Land­spítalanum eftir að annað bif­hjól hafnaði utan vegar. Áður en slysið átti sér stað hafði verið varað við um­ræddum vegar­kafla, meðal annar í Facec­book hóp þar sem hann var kallaður „dauða­gildra.“

Endan­leg á­byrgð hjá Vega­gerðinni

„Við erum að fara yfir þetta allt saman,“ segir Pétur Matthías­son, upp­lýsinga­full­trúi Vega­gerðarinnar í sam­tali við Frétta­blaðið. „Í út­boð­skil­málum er á­kvæði sem segir til um hvað vegurinn má vera háll.“

Vega­gerðin er nú á vett­vangi að mæla við­nám á vegar­kaflanum sem um ræðir. „Það hafa verið ein­hver vanda­mál hjá verk­taka með þetta núna,“ segir Pétur um ný­mal­bikaðan veginn.

Verk­taki sinnir vega­gerðinni og eftir­lit með verkinu var boðið út. Endan­leg á­byrgð liggur þó á­vallt hjá Vega­gerðinni sjálfri. „Við erum að fara yfir allan þennan feril og átta okkur á hvað hefði mátt fara betur,“ bætir Pétur við.

Margir sam­vinnandi þættir

Hann tekur fram að slys geri sjaldan boð á undan sér og í þessu til­viki hafi veður spilað inn í að­stæður. „Það var bæði mjög hlýtt og búið að rigna.“ Veður­að­stæður spili þannig saman og geri veginn hálli en ella.

„Búið var að merkja að kaflinn væri háll en það er stundum þannig þegar slys verða að það eru margir sam­vinnandi þættir sem spila saman og leiða til þess.“ Til­kynning frá Vega­gerðinni um málið er væntan­leg í dag þar sem farið verður yfir að­stæður á vett­vangi.