Vega­gerðin hyggst ekki taka af­stöðu um þá á­kvörðun Reykja­víkur­borgar að banna nagla­dekk á bílum borgarinnar ef undan eru skildir sorp­hirðu­bílar.

„Það eru nagla­dekkin sem slíta fyrst og fremst, þau eru megin­þáttur í sliti á vegum. En við horfum fyrst og fremst á um­ferðar­öryggi. Þess vegna höfum við mælt með að fólk sé á nagla­dekkjum, sér­stak­lega þegar komið er út fyrir bæinn,“ segir G. Pétur Matthías­son, upp­lýsinga­full­trúi Vega­gerðarinnar.

Að mati Vega­gerðarinnar eru naglar á vegum úti á landi nauð­syn­legir. Öryggi sé sliti á götum mikil­vægara og rétt­læti notkun nagla­dekkja.

„Þegar komið er út á land teljum við að naglar séu nauð­syn­legir, enda er vetrar­þjónustan ekki þannig að vegirnir séu lausir við hálku. Við teljum mun minni þörf hér á höfuð­borgar­svæðinu fyrir nagla­dekk,“ segir G. Pétur.

„Við höfum þess vegna mælt með að fólk sé á nöglum úti á landi.“