Hluti landeigenda að Seljanesi hafa sent Vegagerðinni erindi þar sem þeir benda á að þeir hafi ekki heimilað stofnuninni þau afnot af vegi um Seljanesland sem Vegagerðin framseldi til VesturVerks í síðasta mánuði. Þeir fara fram á gögn Vegagerðarinnar sem sýni meinta eign hennar yfir veginum, veghaldi og meintu vegsvæði. Að sögn landeigendanna gat stofnunin ekki veitt slík gögn þegar Landvernd fór fram á þau síðast.

Landsvegur sannarlega ekki virkjanavegur

Sá hluti landeigenda sem um ræðir eiga helming óskiptrar jarðar Seljaness. Að þeirra sögn hafa þeir aldrei heimilað Vegagerðinni þau afnot af vegi sem liggur um landið sem stjórnvaldið framseldi síðan til VesturVerks þann 19. júní síðastliðinn eins og greint hefur verið frá. Vegagerðin yfirtók veginn og vegahald árið 2004 án nokkurs samráðs við landeigendur.

Ljóst er að víðernin breytist nokkuð verði af virkjanaáformunum.

Þeir benda þá á að í framsalssamningnum við VesturVerk hafi vegurinn jafnframt verið ætlaður til allt annarra afnota en þeirra sem að sögn Vegagerðarinnar voru grundvöllur yfirtöku stjórnvaldsins á veginum. Þar hafi hann verið skilgreindur sem landsvegur sem landeigendurnir segja að sé „sannarlega ekki það sama og virkjanavegur“. Þá má lesa eftirfarandi í skilgreiningu Vegagerðarinnar á landsvegum: „Á vegum þessum skal yfirleitt einungis gera ráð fyrir árstíðabundinni umferð og minna eftirliti og minni þjónustu en á öðrum þjóðvegum.“

Vinnuvélarnar fá ekki að koma inn á landið

Framkvæmdir VesturVerks á Ófeigsfjarðarvegi hófust í lok síðasta mánaðar en þær eru fyrsti liðurinn í undirbúningi framkvæmda fyrir Hvalárvirkjun. Óhætt er að segja að fyrirhuguð virkjun sé afar umdeild meðal íbúa á Ströndum. Vegaframkvæmdirnar voru stöðvaðar tímabundið af Minjastofnun á meðan unnið var að áliti vegna fornminja á svæðinu. Því hefur nú verið skilað og má því búast við að framkvæmdirnar hefjist aftur á næstunni.

Það ætti að taka um tvo daga fyrir vinnuvélarnar að ná inn á land Seljaness að sögn landeigenda á svæðinu.

Vegaframkvæmdirnar eru þó ekki komnar inn á land Seljaness en má búast við að gröfurnar nái þangað eftir um tveggja daga verk. Þetta segir umræddur hluti landeigenda að sé ekki til umræðu. VesturVerk fái ekki að koma með vinnuvélar sínar inn á þeirra landsvæði, enda hafi þeir aldrei gefið leyfir fyrir vegaframkvæmdum á landinu.

Þeir segja þá að gripið verði til allra ráða til að hindra framkvæmdir á landinu og má þannig búast við einhvers konar mótmælum og stöðvun vélanna ef VesturVerk reynir að komast inn á landið.

„Eignaréttur að þessu svæði tilheyrir ekki Vegagerðinni innan lands Seljaness skv. neinum þeim gögnum sem fram hafa komið,“ segir í erindi Landeigendanna. Þeir mótmæla því þá einnig að akbrautin og vegsvæðið kunni að vera allt að 12 metra breitt eins og kemur fram í samning Vegagerðarinnar og VesturVerks. „Slíkt athafnasvæði er órökstutt, vísar ekki í neinar reglur og styðst ekki við nein fram komin málefnaleg sjónarmið.“

Þeir óska nú eftir tafarlausum svörum Vegagerðarinnar og að hún rökstyðji framsalið og færi þeim gögn sem sýni meintan rétt stofnunarinnar yfir veginum. Þá er einig spurt hvort stjórnvaldið telji sig geta ráðstafað 12 metra breiðri landspildu úr landi Seljaness með framsali veghalds til þriðja aðila.

Fréttablaðið fékk þá staðfest frá Vegagerðinni að erindið hefði verið móttekið og væri til skoðunar. Stofnunin vildi ekkert tjá sig um málið á meðan.