Snjóruðningstæki Vegagerðarinnar hafa ekið tæplega 80 þúsund færri kílómetra miðað við sama tíma í fyrra, það sem af er vetri. Þar af leiðandi er lítil sem engin þörf á að ryðja snjó af vegum landsins.

Eins og gefur að skilja felur snjóleysið í sér töluverðan sparnað fyrir þá sem sjá um vetrarþjónustu og það er raunin, segir G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar.

„Vissulega lítur þetta vel út og það felst töluvert mikill sparnaður í þessu árferði núna, en annars kemur þetta í bylgjum og ekki hægt að segja til um veturinn eða árið í ár,“ segir hann.

Að sögn Péturs eru fjárveitingar til vetrarþjónustunnar um 3,8 milljarðar króna, en í því felst öll vetrarþjónusta. Snjómokstur og hálkuvarnir séu aðeins hluti af þjónustunni.

„Þessi kostnaður er þó afar sveiflukenndur og það kemur fyrir í síauknum mæli að kostnaður verður meiri en fjárveitingar, þegar mikið gengur á í veðrinu. Einnig er rétt að nefna að óskir um aukna vetrarþjónustu verða sífellt háværari vegna þess að fleiri og fleiri sækja vinnu um langan veg og nú er boðið upp á ferðamennsku allt árið,“ segir Pétur og bætir við að almenn þjónusta við vegakerfið aukist í þessu árferði.

„Við erum ánægð með ástandið samt og erum tilbúin þegar vetrarveðrin bresta á,“ segir Pétur.