Vega­gerðin horfir nú til þess að meðal­hraða­eftir­lit verði tekið upp í Hval­fjarðar­göngum.

Eins og fram kom í Frétta­blaðinu í gær hefur ný tækni sem mælir meðal­hraða milli tveggja mældra punkta rutt sér til rúms hér á landi með raf­rænu sólar­hrings­eftir­liti. Hátt í 900 öku­menn hafa verið sektaðir vegna hrað­aksturs­brots á Grinda­víkur­vegi síðustu mánuði með nýrri tækni.

Ríkið horfir til þess að fjölga mynda­vélum sem mæla meðal­hraða. Öku­maður sem fer reglu­lega milli Akur­eyrar og Borgar­ness veit hvar fastar hraða­mynda­vélar eru stað­settar. Margir lækka öku­hraða þegar ekið er fram hjá þeim, svo er jafn­vel gefið aftur í. En ef ó­lög­legur meðal­hraði milli tveggja punkta er mældur er engin leið að sleppa frá broti án viður­laga.

„Það sem er næst til skoðunar varðandi meðal­hraða­eftir­litið eru Hval­fjarðar­göng,“ segir G. Pétur Matthías­son, upp­lýsinga­full­trúi Vega­gerðarinnar. „Við höfðum líka verið að horfa til Þing­valla­vegar í gegnum þjóð­garðinn en viljum skoða það betur,“ bætir hann við.

Frétta­blaðið hefur greint frá á­skorunum við að fullnusta greiðslu sekta hjá er­lendum ferða­mönnum ef þeir komast úr landi án þess að hafa greitt fyrir brot sitt. Margir lög­reglu­menn vilja að lögum verði breytt þannig að betur verið tryggt að brot­legir er­lendir ferða­menn borgi brúsann.

Hrað­akstur er ein aðal­or­sök al­var­legra um­ferðar­slysa hér á landi. Lög­reglan á Norður­landi eystra er í hópi þeirra sem hafa beint spjótum sínum sér­stak­lega að eftir­liti með hrað­akstri í sumar. Af­raksturinn hefur skilað 1.355 kærðum brotum vegna frum­kvæðis­mælinga lög­reglu í um­dæminu. Inni í þeirri tölu eru engin brot mæld með mynda­vélum, um­fang hrað­aksturs­brota virðist fara vaxandi.

Jóhannes Sig­fús­son, að­stoðar­yfir­lög­reglu­þjónn á Akur­eyri, segir að lög­regla hafi ekki síst ein­beitt sér að kunnum hrað­aksturs­stöðum. At­hygli veki að í júlí­mánuði einum og sér hafi 350 verið kærðir í um­dæminu fyrir hrað­akstur. Það sé nokkur aukning frá fyrri árum.

„Okkur finnst þetta mjög mikið,“ segir Jóhannes.

Hann segir er­lenda öku­menn nokkuð hátt hlut­fall brot­legra. Lög­reglu­menn reyni að fá þá til að ljúka sektar­málum með greiðslu inni í lög­reglu­bílnum. Það takist oft en ekki séu teknar tryggingar af kortum er­lendra öku­manna hér á landi eins og víða í ná­granna­löndum, sem geti hamlað eftir­fylgni.

Sér­stök inn­heimtu­mið­stöð á Vestur­landi sér um að rukka sektirnar á vegum lög­reglu. Tölu­vert inn­heimtist oft utan land­steinanna að sögn Jóhannesar. Þegar um ræðir brot mæld með sjálf­virkum mynda­vélum er tor­veldara en inni í lög­reglu­bíl að inn­heimta sektir utan land­steinanna en ef bíla­leiga hefði af­rit af greiðslu­korti öku­manns og búið væri að ganga frá tryggingu til að inn­heimta sekt án mála­lenginga.

Jóhannes tekur undir orð fleiri lög­reglu­manna sem Frétta­blaðið hefur rætt við um að skil­virkni og jafn­ræði myndi aukast með því að breyta reglum svo allir sitji við sama borð.

G. Pétur Mattíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar.
Mynd/aðsend.