„Við höfum séð kippi í framboði vændis sem tók við sér til muna eftir að ferðamannaiðnaðurinn tók við sér á sínum tíma,“ var haft eftir Stefáni Erni Arnarssyni hjá miðlægri rannsóknardeild lögreglunnar í Fréttablaðinu í gær.

„Undanfarin ár hefur orðið aukning í framboði. En sakborningar í vændismálum eru ekki almennt útlendingar, heldur Íslendingar,“ segir Grímur Grímsson lögreglumaður.

„Konurnar sex sem ég talaði við könnuðust ekki við að fá útlendinga til sín,“ segir Brynhildur Björnsdóttir, höfundur bókarinnar Venjulegar konur: Vændi á Íslandi sem kom út í fyrra. Viðmælendur Brynhildar höfðu unnið við vændi á ýmsum tímabilum og þar af voru tvær nýlega hættar. Viðtölin voru tekin árið 2021.

Brynhildur Björnsdóttir.

„Ég lagðist í alls konar rannsóknarvinnu. Það er ýmislegt sem bendir til þess að eftirspurnin hér á landi sé ekki frá ferðamönnum,“ segir Brynhildur. „Það kemur ekkert á óvart að framboðið á vændi aukist á þessum miðlum, sem eru aðallega vefsíður sem eru hýstar erlendis, við erum einfaldlega í þannig þjóðfélagsástandi. Það er verðbólga og erfiðara að ná endum saman. Þá er þetta örþrifaráð. Það er mín tilfinning að þetta haldist ekki endilega í hendur við ferðamannaiðnaðinn eða ferðamenn.“

Brynhildur hefur eftir einni kvennanna að af þeim hundruðum manna sem sóttust eftir vændi hafi aðeins verið tveir erlendir.

Hvað umræðu um samfélagsmiðilinn Onlyfans varðar segir Brynhildur: „Þegar fólk fer inn á Onlyfans er það með hugmynd um að græða rosa mikinn pening. En raunin er sú að meðaltekjurnar eru kannski 130 dollarar á mánuði, og það er ef fólk er stöðugt að setja inn efni og með stanslausa viðveru. En svo fer það að ganga lengra og lengra og smám saman fer fólk að brjóta niður mörkin sín,“ segir hún og minnir á að þeir sem stundi slíkt af brýnni fjárþörf séu ekki færir um að setja mörk á sama hátt og fólk sem sé á Onlyfans af áhuga eða sem kynverur.

Grímur Grímsson

Steinunn Gyðu-Guðjónsdóttir, talskona Stígamóta, tekur í sama streng og segir starfsfólk Stígamóta ekki hafa orðið vart við tengsl ferðaþjónustu og vændis hér á landi. „Konurnar sem koma til okkar eftir vændi eru langflestar Íslendingar og samkvæmt þeim eru þetta langoftast íslenskir menn sem kaupa vændi af þeim.“

Steinunn segist þó sjá mjög skýrt, sé litið á fyrrnefndar vændissölusíður, að gríðarlegur fjöldi erlendra kvenna sé að auglýsa vændi hér á landi. „Þetta eru gjarnan konur sem eru að koma hingað og stoppa stutt í hvert skipti. Maður hefur áhyggjur af því að þær séu þolendur mansals. Það er sárasjaldan sem við hittum þessar erlendu konur á Stígamótum enda hafa þær ekki endilega tækifæri til þess að leita sér aðstoðar.“

Að sögn Steinunnar hefur efnahagsástand alltaf áhrif á það hvort konur fari aftur í vændi. „Oft eru þetta konur sem eru háðar ytri áhrifum, oft konur með litla menntun sem starfa í láglaunastörfum. Verðbólgan hefur bein áhrif á þær. Þetta sáum við í byrjun Covid þegar margar þeirra voru að missa vinnuna. Þá voru þær hjá okkur að íhuga hvað þær ættu að gera. Hvort þetta yrði leiðin sem þær myndu fara til að leysa málin. Það er ekki ólíklegt að svoleiðis komi upp núna líka.“

Steinunn Gyðju-Guðjónsdóttir