Jólasveinninn Stekkjastaur kemur til byggða í nótt, aðfaranótt 12.desember. Veðurstofa Íslands hefur sent frá sér tilkynningu þar sem lögð er áhersla á að hann sé búinn samkvæmt veðri.

Spáð er hægum sunnanvindi og stjörnubjart verður á norðanverðu landinu og á Vestfjörðum, en sunnan við Vatnajökul er hvassara og rigning eða slydda í byggð en snjókoma á hálendinu.

„Veðurstofan bendir Stekkjastaur því á að vera vel klæddur og í vatns og vindheldu þegar hann leggur af stað,“ segir í tilkynningu Veðurstofunnar.

Stekkjastaur hyggst, líkt og svo oft áður, gefa í skóinn. Hann lýsti því í viðtali við RÚV fyrir nokkrum árum hvað hann teldi æskilegt að jólasveinar gæfu. „Það á ekki að setja síma, eða Ipad eða fartölvur eða eitthvað svona í skóna. Börnin hafa ekkert með þetta að gera,“ sagði hann.