Veðurstofan hefur gefið út upplýsingar um hættur sem geta leynst á gosstað og vil koma á framfæri við mögulega gesti svæðisins að aðstæður geti breyst hratt og fyrirvaralaust.

Allir þeir sem hafa í huga að heimsækja gosið á næstu dögum eru beðnir um að hafa eftirfarandi áhættuþætti í huga:

  • Viðvarandi gasmengun. Hættan eykst þegar vind lægir. Lífshættulegar gastegundir geta safnast í dældum og jafnvel verið banvænar.
  • Nýjar gossprungur geta opnast í næsta nágrenni eldstöðvanna með litlum fyrirvara.
  • Glóandi hraun getur fallið úr hraunjaðrinum og hröð og skyndileg framhlaup orðið þar sem nýjar hrauntungur brjótast fram úr hraunjaðrinum með miklum hraða sem erfitt er að forðast á hlaupum.

Veðurstofan hefur einnig birt kort sem skilgreinir hættusvæði nálægt eldgosinu svo forðast megi þá staði. Kortið má sjá hér fyrir neðan.

Á kortinu má sjá skilgreind hættusvæði samkvæmt Veðurstofu Íslands.
Mynd/VeðurstofaÍslands

Annað sem veðurstofa hefur birt er gasdreifingarspá sem hægt er að nálgast á vef veðurstofunnar hér. Spálíkanið sýnir brennisteinsmengun (SO2 og SO4) í byggð fyrir næstu 72 tíma.

Þá er tekið fram að mikilvægt sé að vera á varðbergi gagnvart óvæntri gasmengun sem getur orðið og safnast gas í lautum, hlíðum og öðrum stöðum.