„Ég hef ekki upp­lifað annað eins,“ segir Sigur­jón Frið­riks­son, starfs­maður Alcoa Fjarða­áls, en hann var á ansi langri vakt í ál­verinu frá sunnu­degi og fram á mánu­dag en það var ekki hægt að ferja nýja starfs­menn til vinnu í ál­verinu í ó­veðrinu sem gekk yfir landið á sunnu­dag.

Ljóst er að mikið tjón er eftir veður­ofsann á Suð­austur­landi, Austur­landi, í Ör­æfum og á Norður­landi eystra.

Nokkrar hjálpar­beiðnir bárust til björgunar­sveita með gær­morgninum vegna foks á Reyðar­firði, í Nes­kaup­stað og á Seyðis­firði. Tré höfðu rifnað upp með rótum, þak­plötur fokið, gluggar brotnað og heilu húsin fallið saman.

Að­skota­hlutir fuku á svo­kallaða FL4-línu sem liggur inn í ál­verið á Reyðar­firði og varð verk­smiðjan raf­magns­laus í hart­nær þrjá klukku­tíma. Sigur­jón segir að raf­magn hafi farið af ál­verinu árið 2010 í fjóra klukku­tíma og þá hafi verið mikið stress enda ekkert grín fyrir ál­ver að verða raf­magns­laust.

„Við vorum úti í skála og tjóðruðum hurðir fastar og svo var bara beðið eftir að straumur kæmi aftur. Svo þegar hann kom þá hófst svaka­leg keyrsla,“ segir Sigur­jón.

„Starfs­fólk stóð sig frá­bær­lega við þessar að­stæður,“ segir Dag­mar Ýr Stefáns­dóttir, upp­lýsinga­full­trúi Alcoa. Hún segir ál­verið ekki geta verið raf­magns­laust lengi, því þá skapist veru­leg hætta. „Ef það er raf­magns­laust of lengi gæti farið að frjósa í kerjunum og þá þyrftum við að byrja upp á nýtt,“ segir hún.

Bílrúður brotnuðu í bílum ferðamanna þegar grjót og hnullungar fuku á þá.
Mynd/Friðrik Árnason

Í Möðru­dal sátu um 70 manns fastir vegna ó­veðursins.

„Þetta var fólk sem við þurftum að hjálpa. Það var náttúru­lega bara von­laust veður og þetta er fólk sem lenti í því að eigin­lega allar rúður hjá þeim brotnuðu í veðrinu,“ segir Vil­hjálmur Vern­harðs­son, staðar­haldari í Fjalla­dýrð í Möðru­dal.

Trausti Jóns­son veður­fræðingur bendir á að það sé frekar ó­vana­legt að hiti falli jafn mikið á svo skömmum tíma og gerðist á sunnu­dag. Hitinn á Dala­tanga mældist 24,1 gráða á föstu­dag.

„Hitinn féll um 15 til 18 gráður á nokkrum klukku­tímum sem er heldur ó­venju­legt,“ segir hann.

Gísli Rafn Jóns­son, eig­andi Mý­vatn Tours, að­stoðaði ferða­menn í vanda frá Náma­skarði og austur að Biskups­hálsi. „Þetta var al­gjört skíta­veður. Það flaug grjót um allt, ekki reyndar á okkur því það var kominn snjór þegar við komum að Biskups­hálsi. Við sóttum ein­hverja tíu bíla en það var þannig að það sást ekki neitt á köflum. Það var ekki stætt á veginum og alveg voða­leg hálka á honum.“

Á­kveðið var að loka veginum beggja vegna upp Náma­skarðið en veðrið þar var slíkt að vöru­bíl­stjórar Vega­gerðarinnar voru stressaðir yfir að fjúka hrein­lega út af við að sanda veginn. Fjölda­hjálpar­mið­stöð var opnuð í Mý­vatns­sveit í grunn­skólanum fyrir ferða­menn og segir Gísli að um 25 manns hafi nýtt sér mið­stöðina. Talið er að tjónið um allt land hlaupi á tugum milljóna en full­trúar Náttúru­ham­fara­tryggingar Ís­lands munu kanna að­stæður þegar veður leyfir.