Búist er við ofsaveðri á þriðjudag og hefur Veðurstofan gefið út gula viðvörun sem nær yfir vestanvert landið. Þorsteinn V. Jónsson, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir í samtali við Fréttablaðið að um sé að ræða fyrstu viðvörun af nokkrum.

„Þetta verður ansi öflugur vetrarstormur,“ segir hann. Útlit sé fyrir appelsínugular viðvaranir þegar líður á morgundaginn.

„Þetta veður mun væntanlega hafa einhverjar afleiðingar,“ segir Þorsteinn og nefnir sérstaklega truflanir á samgöngum, rafmagni og millilandaflugi. „Þetta er ekkert ferðaveður og fólk er beðið um að hafa varann á.“

Búist við tjóni

Þá gerir Þorsteinn einnig ráð fyrir að tjón verði vegna veðursins. „Vonandi tekst fólki að bregðast vel við á morgun til að lágmarka tjónið,“ segir hann og bendir á mikilvægi þess að ganga frá lausamunum utandyra.

Veðurstofa Íslands gaf út gula viðvörun fyrir næstkomandi þriðjudag.
Mynd/Veðurstofa Íslands

Aukin hætta á snjó­flóði

„Þetta verður hörku skellur þar sem þessu fylgir líka mikil snjó­koma,“ útskýrir Þorsteinn. Sér­fræðingar komi til með að fylgjast grannt með snjó­flóða­stöðum á næstu dögum og nefnir Þor­steinn þar sér­stak­lega Trölla­skaga, Skaga­fjörð og Vest­firði.

„Norð­vestur­hluti landsins verður verst úti í þessu veðri.“

Bál­hvasst verður þó einnig á suð­vestan­verðu landi en úr­koma verður fyrir­ferðar­minni þar. Búist er við að veðrið gangi niður á um það bil tveimur sólar­hringum.

Austur­helmingur landsins sleppur alveg á þriðju­daginn en þar verður að­eins hægur vindur og lítils háttar úr­koma. „Á mið­viku­daginn færist veðrið svo austur yfir landið.“

Uggandi yfir veðrinu

Ekki er búist við aftakaveðri á morgun, mánudag, og því kjörið að fólk búi sig undir storminn, segir Þorsteinn.

„Ef fólk er í start­holunum og grípur til ráð­stafana á morgun þá er hægt að draga mjög úr tjóni þegar þetta gengur yfir,“ í­trekar Þor­steinn. „Maður er uggandi yfir þessu veðri vegna þess að það getur orðið mikið tjón.“

„Þetta verður ansi öflugur vetrar­stormur.“
Fréttablaðið/Pjetur