Starf veður­fræðinga er ekki alltaf auð­velt eins og dæmin sanna; þó þeir hafi oftar en ekki rétt fyrir sér kemur fyrir að þeim skjátlist hrapal­lega.

Það gerðist í Búda­pest, höfuð­borg Ung­verja­lands, um helgina en þá var stórri flug­elda­sýningu frestað eftir að veður­fræðingar við ung­versku veður­stofuna spáðu rigningu og roki í borginni um það leyti sem sýningin átti að hefjast.

Á laugar­dag var þjóð­há­tíðar­dagur Ung­verja­lands haldinn há­tíð­legur og af því til­efni átti að skjóta upp 40 þúsund flug­eldum frá 240 stöðum í mið­borg Búda­pest. Í frétt BBC kemur fram að búist hafi verið við því að tvær milljónir manna myndu horfa á sýninguna.

Flug­elda­sýningin – sú stærsta í Evrópu að sögn – var blásin af eftir að veður­fræðingar vöruðu við vonsku­veðri í borginni. Voru taldar 80 til 90 prósenta líkur á roki og rigningu. En þegar leið á laugar­dags­kvöldið varð ljóst að spáin myndi ekki rætast og var veður með besta móti í borginni.

Í frétt BBC kemur fram að ung­verska veður­stofan hafi beðist af­sökunar á Face­book-síðu sinni. Þrátt fyrir þessa af­sökun – og þá stað­reynd að flug­elda­sýningunni var að­eins frestað um eina viku – fór það svo að tveir af reynslu­mestu veður­fræðingum stofnunarinnar var sagt upp störfum.