Starf veðurfræðinga er ekki alltaf auðvelt eins og dæmin sanna; þó þeir hafi oftar en ekki rétt fyrir sér kemur fyrir að þeim skjátlist hrapallega.
Það gerðist í Búdapest, höfuðborg Ungverjalands, um helgina en þá var stórri flugeldasýningu frestað eftir að veðurfræðingar við ungversku veðurstofuna spáðu rigningu og roki í borginni um það leyti sem sýningin átti að hefjast.
Á laugardag var þjóðhátíðardagur Ungverjalands haldinn hátíðlegur og af því tilefni átti að skjóta upp 40 þúsund flugeldum frá 240 stöðum í miðborg Búdapest. Í frétt BBC kemur fram að búist hafi verið við því að tvær milljónir manna myndu horfa á sýninguna.
Flugeldasýningin – sú stærsta í Evrópu að sögn – var blásin af eftir að veðurfræðingar vöruðu við vonskuveðri í borginni. Voru taldar 80 til 90 prósenta líkur á roki og rigningu. En þegar leið á laugardagskvöldið varð ljóst að spáin myndi ekki rætast og var veður með besta móti í borginni.
Í frétt BBC kemur fram að ungverska veðurstofan hafi beðist afsökunar á Facebook-síðu sinni. Þrátt fyrir þessa afsökun – og þá staðreynd að flugeldasýningunni var aðeins frestað um eina viku – fór það svo að tveir af reynslumestu veðurfræðingum stofnunarinnar var sagt upp störfum.