„Það er minna sólarljós og það er það sem maður er kannski mest hræddur við varðandi þessa styttingu, að við lendum í því að leita að mönnum,“ segir Aðalsteinn Júlíusson, varðstjóri hjá lögreglunni á Akureyri, varðandi breytt fyrirkomulag í veiðum á rjúpu.

Rjúpnaveiðitímabilið hófst á hádegi í gær en tvísýnt var um það hvort rjúpnaveiði yrði leyfð sökum lágs veiðiþols. Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra ákvað hins vegar að veiðar yrðu leyfðar en einungis frá hádegi og þar til tekur að dimma.

Veiðar eru leyfilegar föstudaga–þriðjudaga 1.–30. nóvember.

Fyrsti veiðidagurinn fór ágætlega af stað á Norðausturlandi, að sögn Aðalsteins. Allt var með kyrrum kjörum en veðrið var þó ekki upp á sitt besta.

„Það var ausandi rigning og skítaveður þannig að það er ekkert víst að það hafi margir farið í dag,“ sagði Aðalsteinn.