„Þetta verður mikil ferða­helgi. Það væri synd að nýta ekki svona veður til ferða­laga,“ segir Sigurður Þ. Ragnars­son veður­fræðingur, einnig þekktur sem Siggi Stormur.

Það má búast við blíð­viðri víðast hvar á landinu um helgina og gæti hitinn náð 22 stigum á sunnu­dag á Suður- og Suð­austur­landi.

„Það horfir af­skap­lega vel með veður, það verður hlýtt, víðast sól­ríkt og vindur yfir­leitt hægur. Á morgun laugar­dag er lægð að rembast við að nálgast landið. Hún nær því ekki en af hennar völdum verður vindur heldur meiri suð­vestan til og ekki alveg eins sól­ríkt sunnan og eitt­hvað norður með vestur­landi, alla vega um tíma,“ segir Sigurður og heldur á­fram:

„Það verður því ekki annað sagt en að nú sé full á­stæða til að skella sér af stað með hjól­hýsið, felli­hýsið og hvað þetta nú allt heitir hvert á land sem er. Ég sé hvergi rigningu í kortunum og í einni spánni sé ég meira að segja góða skapið flæða um allt land. Spurning hvort það þyrfti að gefa út við­vörun vegna þess.“