„Ef horft er til sól­skins­stunda og hita­fars þá mun sunnan­vert landið og síðan vestur­landið hafa vinninginn í veðrinu þessa stóru ferða­helgi,“ segir Sigurður Þ. Ragnars­son, Siggi Stormur, um veðrið þessa fyrstu helgi júlí­mánaðar.

Sigurður segir að á morgun, laugar­dag, verði fremur hæg norð­læg eða breyti­leg átt, en strekkingur við austur­ströndina. Það verður bjart með köflum sunnan og vestan til á landinu og hætt við stöku skúrum. Annars verður víðast skýjað og úr­komu­lítið og hitinn á bilinu 6 til 18 stig, hlýjast á Suð­austur­landi. Það fer svo að rigna austast á landinu seint annað kvöld með vaxandi vindi.

Sigurður segir að á sunnu­dag muni vindur vaxa nokkuð á landinu og gætum við séð norð­vestan 8 til 15 metra á sekúndu þar sem hvassast verður austan til. Á Norð­austur- og Austur­landi má gera ráð fyrir rigningu en þurrt verður og bjart með köflum sunnan og suð­vestan til. Hiti verður þetta frá 4 til 16 stig, hlýjast sunnan­lands.

Besta veðrið verður þó á sunnan­verðu landinu og gætu nokkuð myndar­legar hita­tölur sést.

„Við gætum verið að sjá á Suð­austur­landi á laugar­deginum 20 stiga hita­múrinn falla, í V-Skafta­fells­sýslu. Vindur verður víðast hægur og því kann lús­mýið að herja á ferða­menn sem aðra. Það verða síðan all­nokkrar breytingar á sunnu­deginum þegar úr­komu­belti verður yfir Norð­austur- og Austur­landi og vindur vex alls staðar á landinu. Hann verður þó stífastur suð­austan og austan til. Á sunnu­deginum verður að líkindum bjart­viðri á Suður­landi og eitt­hvað norður með Vestur­landinu. Það er ekki að sjá heið­ríkju en það gæti orðið á­gæt­lega bjart veður. Hitinn á sunnu­deginum dalar að­eins,“ segir Sigurður að lokum.