„Mér sýnist að þessi vika verði til þess að gera vætusöm um mest allt land, síst þó kannski í dag. Þetta verður þó mjög mismikil væta, mest síðdegis á morgun og miðvikudag,“ segir Sigurður Þ. Ragnarsson veðurfræðingur, betur þekktur sem Siggi Stormur.

Sigurður segir að það verði þurrt fram til hádegis á morgun en þá fer að rigna, fyrst vestan til en síðar um allt land. Vindur mun síðan aukast eftir því sem líður á daginn.

Þó að næstu dagar séu ekki spennandi í veðrinu eru bjartari tímar fram undan.

„Síðan dregur til tíðinda um og yfir næstu helgi en þá er helst að sjá að það verði hæðarhryggur yfir landinu með sólríku veðri, einkum þó á vesturhelmingi landsins. Spárnar eru núna að sýna að hann blási af norðri, jafnvel nokkuð stífur vindur og hlýjast sunnan og suðvestan til. Það verður spennandi að sjá hvernig þessi veðrakerfi munu þróast,“ segir hann.

„Þá skulum við sjá hvernig viðrar á landsmenn á morgun. Það verður vaxandi sunnan- og síðar suðvestanátt á morgun, strekkingur eða allhvasst sunnan og vestan til þegar kemur fram á daginn annars hægari. Úrkomulítið fyrir hádegi með björtu veðri norðaustan- og austanlands en fer svo að rigna, fyrst vestan til og síðan víða um land. Hiti 9-16 stig, hlýjast fyrir austan.“