Sigurður Þ. Ragnarsson veðurfræðingur, betur þekktur sem Siggi Stormur, segir að veðurspár séu alls ekki sammála um helgarveðrið.

Spár hafa verið að gera ráð fyrir bongóblíðu á norðaustanverðu landinu um helgina, sól og um og yfir 20 stiga hita, en enn er þó of snemmt að segja til um hvort hún rætist.

„Sumar spár eru að benda til bongóblíðu á landinu um helgina. Rétt er að benda á að spárnar eru alls ekki sammála um helgarveðrið og þar með er bongóblíðuspáin brothætt. En góð hlýindi eru í kortunum,“ segir Sigurður.

Varðandi veðrið á morgun segir hann að hægviðri einkenni veðrið næsta sólarhringinn en dropar gætu fallið úr lofti hér og hvar. Gera má ráð fyrir allt að tólf stiga hita á landinu á morgun.

„Vindur verður hægur og vindáttin breytileg. Þungbúið og víða einhver væta hluta úr degi. Hiti 3-12 stig, svalast nyrst á Vestfjörðum.“