„Fram undan er prýði­legt helgar­veður. Við eigum von á til­tölu­lega hægum vindi, lítilli úr­komu og á­gætum hlýindum,“ segir Sigurður Þ. Ragnarsson veðurfræðingur, einnig þekktur sem Siggi Stormur.

„Þennan ágúst mánuð hefur hitinn verið ein­hvers staðar á landinu á bilinu ní­tján til tuttugu stig, en hitinn fór mest upp í 24 stig í Ás­byrgi fyrir nokkrum dögum, þannig það hefur orðið tölu­verður við­snúningur í hita­fari fyrir norðan frá því sem verið hefur í sumar, eins og ég átti von í í ágúst. En það er hins vegar prýði­legt veður í ein­staka daga og ekkert að sjá annað en við eigum nokkra góða daga inni hvað sumarið varðar,“ segir Sigurður og heldur áfram:

„Á morgun verður lægðin kominn austur af og í nótt verður rigning víða um land, sér­stak­lega sunnan til með kvöldinu og verður úr­koma víða sunnan og vestan lands. Lægðin verður komin ein­hvern tímann eftir há­degi á morgun fyrir austan og hún dregur inn á landið pínu­litla norðan­átt eins og eðli­legt er, en það verður eigin­lega enginn vindur sam­fara þessu. Þannig það verða á­fram á­gætis hlýindi við austur­ströndina og jafn­vel hér vestan og sunnan til einnig,“ segir Sigurður.

Það má búast við rigningu á föstudagskvöld, en annars verður fremur þurrt um allt land á laugardag.

„Það verður heldur meiri vindur um austan­vert landið, sér­stak­lega með ströndum. En það verður bjart með köflum og verður hitinn senni­lega hæstur á austur­landi, eitt­hvað ná­lægt 18 stigum. Á laugar­daginn um há­degi á ég von á að það verði úr­komu­lítið á landinu, nánast úr­komu­laust, þó ein­hverjir dropar fyrir norðaustan. En þetta þýðir það að það verði stöku skúrir, annars staðar verður úr­komu­lítið,“ segir Sigurður.

Veðrið með Sigga Storm má sjá í heild sinni í Fréttavaktinni sem sýnd var í kvöld.