Í dag er út­lit fyrir suð­austan golu eða kalda sunnan heiða með dá­lítilli rigningu eða slyddu og bætir í úr­komu eftir há­degi. Hiti 1 til 6 stig og þrír til tíu metrar á sekúndu. Í hug­leiðingum veður­fræðings kemur fram að á Ís­landi teljist mars vera fjórði og síðasti vetrar­mánuðurinn í veður­legu til­liti og getur hæg­lega verið ill­viðra­samt. En miðað við spánna þessa vikuna megi segja að þessa vikuna sé það með ró­legra móti miðað við árs­tíma.

Í spá veður­fræðings segir að á Norður- og Austur­landi verður hæg­viðri þurrt að mestu framan af degi, en seinni­partinn má búast við að þykkni upp með slyddu eða snjó­komu og í kvöld bætir einnig í vind á þessum slóðum og hiti um frost­mark.

Á morgun er síðan spáð suð­austan strekkingi með suður- og vestur­ströndinni og rigningu eða slyddu af og til, en hægari og þurrt að kalla í upp­sveitum. Á Norður- og Austur­landi léttir til og verður víða vægt frost þar. Á fimmtu­dag og föstu­dag er spáð að­gerða­litlu veðri, fremur hægur vindi og lítilli eða engri úr­koma á landinu.

Á vef Vega­gerðarinnar kemur fram að greið­fært sé víðast hvar á lág­lendi en að hálka og hálku­blettir séu á fjall­vegum. Nánari upp­lýsingar um færð vega í á­kveðnum lands­hlutum er hægt að fá á vef Vega­gerðarinnar og nánari upp­lýsingar um veður­spá á vef Veður­stofunnar.

Veður­horfur á landinu næstu daga

Á fimmtu­dag:

Suð­læg átt, 3-10 m/s og skýjað að mestu, en lítils háttar væta við suður- og vestur­ströndina. Hiti 0 til 6 stig, mildast við sjóinn.

Á föstu­dag:

Suð­læg átt, 3-10 m/s og víða bjart­viðri, en skýjað að SV-lands og við N-ströndina og lítils háttar væta þar. Hiti breytist lítið.

Á laugar­dag:

Aust­læg átt, rigning með köflum og hiti 1 til 5 stig, en dá­lítil snjó­koma eða slydda um tíma á norðan­verðu landinu og vægt frost þar.

Á sunnu­dag:

Suð­læg átt og dá­lítil væta við S- og V-ströndina, en annars þurrt að kalla. Hiti 0 til 5 stig.

Á mánu­dag:

Út­lit fyrir á­kveðna austan­átt með rigningu eða slyddu, en þurrt að mestu fyrir norðan. Fremur milt veður.