„Þetta eru plöntur sem undirbúa blómgun árið áður og seinni hluti sumarsins í fyrra var mjög mildur og góður,“ segir Guðríður Helgadóttir garðyrkjufræðingur í samtali við Fréttablaðið. Margir hafa veitt því athygli að gullregn og sírenur standa í miklum blóma í görðum landsmanna.

„Þannig að þessar plöntur komu hlaðnar af alls konar næringarefnum og þykkum og góðum blómbrumum inn í veturinn.“ Guðríður segir að þegar kemur svona hlýtt og gott sumar eins og nú þá blómgist þær kröftuglega. „Það eru ekki bara sírenur og gullregn, öll ávaxtatré eru að missa sig í blómgun. Grenitré, það var alveg sérstaklega mikil blómgun í þeim nú í vor, þau litu út fyrir að vera öll brún en það voru bæði kven- og karlkönglarnir sem voru svona sérstaklega fallegir eftir þetta hlýja haust og seinni hluta sumars í fyrra. Þannig að plönturnar eru svo sannarlega að skila glæsilegri blómgun.“

En skyldi þetta vera óvenjumikil blómgun þetta sumarið?

„Já, þetta er óvenju mikið. Sírenur eru oft ekki svona mikið blómstrandi. Bogsírenur, sem eru með mjóa, svolítið sveigða blómskúfa, eru oft ekki svona mikið blómstrandi eins og núna. Nú er þetta bara eins og allar sírenur og allt gullregn, sem blómstra fyrri hluta sumars, séu alveg að missa sig.“

En hefur það áhrif að ekki kom kuldakast í vor, eins og stundum er?

„Þetta er samspil margs, ef við hefðum fengið kuldakast seint í vor þá hefði það sjálfsagt sett strik í reikninginn.“

Bent hefur verið á að gullregn sé eitruð planta, ekki síst fræin.

„Eitraðasti hluti plöntunnar eru fræin,“ segir Guðríður. „Plantan reynir að tryggja með öllum tiltækum ráðum sem hún hefur að næsta kynslóð lifi af og þá hefur hún ákveðið að stór hluti þeirra eitruðu efna sem hún framleiðir séu sett í fræin, því þannig eigi þau mesta möguleika á að lifa af. Þá láta einhver kvikindi, sem annars myndu éta fræin, þau eiga sig.“ Hún segist hins vegar ekki hafa heyrt nein dæmi um að börn eða aðrir hafi farið sér að voða með því að leggja sér fræin til munns.

„Þau eru heldur ekki girnileg því þau eru inni í hálfloðnum baunabelgjum og ef ég miða við börnin sem eru á mínu heimili þá myndu þau aldrei nokkurn tíma leggja sér eitthvað loðið til munns.“

Guðríður segir fólk ekki þurfa að óttast þetta.

„Það gullregn sem er algengast í görðum er blendingsgullregn sem er ræktað yrki og eiginleg hálfgelt þannig að það framleiðir lítið af fræjum hvort eð er. Það er sjálfsagt að vita af þessu en fólk þarf ekki að missa svefn yfir því að eitruð planta sé í garðinum.“