Tré rifnaði upp með rótum í garðinum hjá Katrínu Atladóttur Borgarfulltrúa í dag en veður hefur verið afleitt á höfuðborgarsvæðinu undanfarinn sólarhring.

„2020 ætlar ekkert að skána :( " segir Katrín um mynd af trénu sem hún birti á Facebook í dag.

Lögreglan hafi í nógu öðru að snúast

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu biðlaði til borgarbúa í gær að kanna með stöðu á trampolínum og öðrum lausum munum utandyra. Fergja það sem á að fergja og taka annað inn.

„Það er eiginlega ekki bætandi á stöðuna að þurfa að fara að eltast við lausa muni ofan á hitt,“ sagði í stöðuuppfærslu embættisins á Facebook í gær.

Brimgarðar verða breikkaðir

Sjór flæddi yfir brimgarða á Granda í Vesturbæ Reykjavíkur í gærkvöldi og fjöldi bíla snéri við í stað þess að keyra yfir öldur sem flæddu yfir götur.

Há sjávarstaða og sterkir straumar ollu því að öldur náðu yfir brimgarða og sjór flæddi yfir götur.

Starfsmenn Reykjavíkurborgar mættu svæðið á gröfu til að hreinsa götur.

Breikka á verulega sjóvarnagarðinn við Eiðsgranda, en hann skemmdist töluvert gær. Innkauparáð ræðir tilboð í verkið í vikunni. Þetta kom fram í hádegisfréttum RÚV.

Stærðarhnullungar úr sjóvarnargarðinum losnuðu og drefiðu sér um göngustíga.
Anton Brink

Jón Halldór Jónasson, upplýsingafulltrúi hjá borginni sagði að stefnt væri að því að breikka sjóvarnargarðinn frá hringtorginu við JL húsið gamla alveg að Boðagranda um sex til átta metra.“

Brimið lét illa við Eiðisgranda í gær.
Fréttablaðið/Anton Brink

Versnandi veðri spáð fyrir norðan

Samkvæmt veðurspá á að draga úr vindi á höfuðborgarsvæðinu og stytta að mestu upp í kvöld. En spáin fyrir landið gerir ráð fyrir vestanátt 10-15 m/s og skúrum sunnan- og vestantil, en annars suðlægri átt, 5-13 og rigningu. Spáð er versnandi veðri fyrir norðan og austan í kvöld með vaxandi suðvestan og síðar vestanátt, 15-23 m/s Draga á úr vindi og stytta upp seint í kvöld, en fer að sjóa á fjallvegum um landið norðanvert.