„Já, það er mikilvægt að upplýsa landann um þetta óveður sem fram undan er, þetta er mjög alvarlegt mál,“ segir Teitur Arason, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands.

Veðurstofan hefur gefið út appelsínugula viðvörun fyrir stærstan hluta landsins á sunnudag.

Spáin bendir til að hvassast verði á Tröllaskaga og austur á Vopnafjörð bæði, stormur og rok. Þar er ekki öll sagan sögð, því spáð er gríðarlegri úrkomu, rigningu og slyddu sem að líkindum verður á köflum að snjó fast niður að sjávarmáli fyrir norðan og austan. Áttin mun standa að hánorðan á Norðurandi eystra þar sem spáð er versta veðrinu.

Sjötíu manna fundur fór fram í morgun þar sem fulltrúar frá lögreglu, Vegagerðinni, Landsneti og fleiri aðilum áttu fulltrúa þar sem aðgerðastjórnir í héraði voru upplýstar um horfurnar.

Ekkert ferðaveður verður á sunnudag. Mikilvægt er að sögn Almannavarna að fólk haldi sig heima.

Jón Svanberg, fagstjóri aðgerðamála hjá Almannavörnum, segir mikilvægt að landsmenn haldi sig heima á sunnudag og það gildi í raun um allt land þótt norðurlandið verði verst úti.

„Þessar viðvaranir eru frá sunnudagsmorgni og standa yfir heilan sólarhring. Það er mjög mikilvægt að fólk fylgist mjög vel með veðurspánni og ferðist ekki.“

Um miðjan sunnudag ná viðvaranir yfir allt landið, ýmist gular eða appelsínugular.

Bændur eru hvattir til að hýsa búfénað sem ella gæti orðið illa úti.

Ástæða óveðursins er köld háloftalægð nærri landinu sem mætir hlýrri tungu í suðri með mikinn raka. Við þetta stefnumót heita og kalda loftsins verður til lægð sem fer til norðurs og ber með mér mjög mikinn raka auk vindstyrksins.

Hin mikla úrkoma mun að líkindum skapa mestan usla á stöðum líkt og á Akureyri, Sauðákróki, Blönduósi, og á Húsavík.

Um það hvort appelsínugula viðvörunin gæti breyst í rauða, segir Veðurstofan að það sé ekki óhugsandi en skýrist á morgun.