Ís­lenskar get­raunir hafa að beiðni Körfu­knatt­leiks­sam­bands Ís­lands beðið al­þjóð­lega fyrir­tækið GLMS að skoða hvort að ó­eðli­lega miklu hafi verið veðjað á leik ÍR og Tinda­stóls síðast­liðinn fimmtu­dag. Fyritækið sérhæfir sig í að rannsaka möguleg veðmálasvindl. Sam­kvæmt upp­lýsingum Frétta­blaðsins er talið að jafn­vel hafi verið veðjað fyrir hundrað milljónir á tap Tinda­stóls, og að rekja megi margar IP-tölur þeirra sem veðjuðu á leikinn til austur-Evrópu. „Ég veit að þær voru er­lendis frá en ég get ekki stað­fest hvaðan,“ sagði Hannes Jóns­son, for­maður KKÍ, í sam­tali við Frétt­blaðið. Einnig er verið að athuga hvort að einhver grunsamleg atvik hafi átt sér stað í leiknum.

Körfu­knatt­leiks­sam­band Ís­lands Íslenskar getraunir að skoða málið eftir að há­vær um­ræða kom upp á sam­fé­lags­miðlum um að ó­venju mikið hefði verið veðjað á leikinn, sem Tinda­stóll tapaði. Ís­lenskar get­raunir eru í sam­starfi við fyritækið GLMS, sem hafa að­gang að upp­lýsingum frá veð­mála- og get­rauna­fyrir­tækjum í Evrópu og Asíu.

Ólíklegar upphæðir

Pétur Hrafn Sigurðs­son, sem starfar hjá Ís­lenskum get­raunum stað­festi í sam­tali að Ís­lenskar get­raunir hafi beðið fyritækið að skoða hvort að ó­eðli­lega miklu hafi verið veðjað á leikinn. Hann segir að niður­stöður muni berast á morgun eða mánu­dag. Ekkert hafi þó enn komið fram sem að bendi til þess að veð­málin hafi verið ó­eðli­leg, enn upp­lýsingarnar séu ekki stað­festar.

Pétri þykir jafn­framt ó­lík­legt að upp­hæðirnar hlaupi á tugum milljóna. Veð­mála­fyrir­tækin séu fljót að loka fyrir veð­mál á leiki í ís­lensku deildunum, þar sem þau hafi litla þekkingu á þeim. Þá vill Hannes ekki heldur segja hversu háar upp­hæðirnar séu, en hann hafi heyrt að þær hlaupi á milljónum.

Eru að horfa á sjálfan leikinn

„Við erum með nokkra hjá okkur sem tóku sig til í rauninni, og eru bara að horfa á leikinn,“ sagði Hannes þegar hann var spurður hvort að verið væri að skoða sjálfan leikinn. „Allt svona er skoðað. Við skoðum leikinn og allt sem er í kringum hann.“ Málið sé þó ekki komið á það stig að talað hafi verið við leik­menn eða aðra sem komu að leiknum. „Þetta er al­gjör­lega á frum­stigi.“

Enginn leik­maður liggur þó undir grun um að hafa hag­rætt úr­slitum leiksins. Komi í ljós að ein­hver hafi hag­rætt úr­slitum fari það í ferli innan sam­bandsins. „Númer eitt, tvö og þrjú erum við bara að bíða eftir gögnum sem er verið að safna saman fyrir okkur.“ Hann býst við á mánu­daginn verði Körfu­knatt­leiks­sam­bandið komið með góða sýn á málið.