Stjórn VR hefur kallað eftir því að bankarnir dragi úr óhóflegum vaxtamun og sagði að bankarnir innheimtu okurvexti. „Það er pínu siðlaust hjá bönkunum að auglýsa mikinn hagnað og snúa svo hnífnum í sárinu með því að hækka vexti nánast daginn eftir,“ sagði Harpa Sævarsdóttir, varaformaður VR stéttarfélags, í Fréttablaðinu í gær.

Arnar segir að ljóst sé að vaxtaálag húsnæðislána miðað við innlán hafi verið með lægra móti miðað við undanfarin ár. „Í kjölfar síðustu tveggja vaxtahækkana Seðlabankans hækkuðu bankarnir vexti á íbúða­lánum minna en sem nam vaxtahækkun Seðlabankans,“ segir hann.

Vextir á Íslandi, og reyndar erlendis einnig, séu sögulega lágir og það sé stórt hagsmunamál fyrir lántakendur að þeir haldist lágir. „Til þess að ná því markmiði má verðbólgan á Íslandi ekki ná flugi á ný. Það er á færi VR og annarra stéttarfélaga að vinna að því markmiði í samráði við stjórnvöld. Lág verðbólga er eitt stærsta hagsmunamál lántakenda. Lántakendur hafa einnig mun meira val en áður þegar kemur að lánum, ásamt því að aldrei hefur verið auðveldara að skuldbreyta og skipta um lánveitanda, sem eykur samkeppni á þeim markaði,“ bendir hann á.

Arnar viðurkennir að vaxtamunur íslensku bankanna hafi verið hærri en hjá norrænum bönkum af svipaðri stærð. „Vaxtamunur kerfislega mikilvægra banka hefur verið um og yfir einu prósentustigi hærri en hjá sambærilegum norrænum fjármálafyrirtækjum og hefur farið lækkandi. Að hluta má skýra muninn með því að íslenska bankakerfið býr við mun meiri skattlagningu en bankar á Norðurlöndum. Stórt skref yrði stigið í þá átt að lækka vexti á Íslandi og minnka vaxtamun með því að jafna leikinn þegar kemur að skattheimtu á fjármálafyrirtæki,“ segir hann og nefnir að það yrði neytendum til hagsbóta ef álögur á banka væru líkari því sem þekkist í nágrannaríkjunum.