Héraðsdómur dæmdi í gær Landsbankann til að endurgreiða lántakendum oftekna vexti af lánum en Arion banki var sýknaður í svipuðu máli.
Það voru Neytendasamtökin, með stuðningi frá VR, sem stóðu að baki málshöfðun fjögurra lántakenda, tveggja í hvorum banka.
Málið snýst um að skilmálar flestra lána með breytilegum vöxtum eru ólöglegir að mati Neytendasamtakanna. Ákvarðanir um vaxtabreytingar séu verulega matskenndar og byggist á óskýrum skilmálum. Af þeim sökum geti neytendur ekki sannreynt hvort þær séu réttmætar.
Að mati Neytendasamtakanna varðar þetta öll lán með breytilegum vöxtum til neytenda, bæði verðtryggð og óverðtryggð, hjá öllum bankastofnunum. Gildir þetta líka um lán sem bera „fasta vexti“ hluta lánstímans, til dæmis í 3 til 5 ár. Þar sem vextir þeirra geta tekið breytingum að þeim tíma liðnum telja samtökin að þau séu í raun lán með breytilegum vöxtum.
Neytendasamtökin telja að hér sé um að ræða hagsmuni upp á tugi milljarða – talan 70 milljarðar hefur verið nefnd.
Út frá því að útlán viðskiptabankanna til heimilanna nema meira en 1.550 milljörðum, en samtökin telja að stærstur hluti þessara lána sé með ólöglega skilmála um breytilega vexti, nemur hvert prósentustig til eða frá meira en 15 milljörðum króna á ári hverju.
Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna, segir samtökin telja að viðskiptabankarnir séu að taka allt að 2,25 prósentum of háa vexti af lánum, sem þýðir að oftaka bankanna geti numið tugum milljarða á ári hverju.
Breki segir mismunandi milli lána um hversu háar upphæðir ræðir, en einnig skipti máli hvernig dómstólar túlki reglur um fyrningu krafna.