Stjórnarandstæðingurinn Alexei Navalní hefur verið færður úr fangelsi yfir á sjúkrahús fyrir fanga sem staðsett er austur af Moskuborg.

Vaxandi áhyggjur eru af heilsufari Navalnís en grunur er um að rússnesk stjórnvöld hafi byrlað honum eitur á síðasta ári. Fram kom í yfirlýsingu sem fangelsismálastofnun Rússlands sendi frá sér í gær að Navalní væri á gjörgæsludeild á sjúkrahúsinu. Þar segir enn fremur að ástand Navalnís sé stöðugt og hann sé undir reglulegu eftirliti lækna.

Navalní hefur verið í hungurverkfalli síðan 31. mars en hann krefst viðunandi læknismeðferðar og skoðunar hlutlauss læknis.

Aðstandendur Navalnís eru ekki sammála fyrrgreindum yfirlýsingum rússneskra stjórnvalda um heilsufar hans. Þeir segja að Navalní sé í lífshættu þessa stundina en hætt sé við því að hann fái nýrnabilun eða hjartaáfall.

Vaxandi spenna er í samskiptum Bandaríkjanna og Rússa. „Við höfum tjáð rússneskum stjórnvöldum hver afstaða Bandaríkjanna sé. Þá höfum við tilkynnt stjórnvöldum í Kreml að Rússar verði dregnir til ábyrgðar á alþjóðlegum vettvangi veiti þeir Navalní ekki viðeigandi læknismeðferð,“ segir Jake Sullivan, öryggisráðgjafi Bandaríkjastjórnar, í samtali við CNN.