Almannavarnir hafa sent frá sér tilkynningu um að auknar líkur séu í hlaupi í Múlakvísl á næstu vikum. Mælingar á Mýrdalsjökli bendi til þess.

Ekki er búist við stóru hlaupi en þó stærra hlaupi en undanfarin átta ár. Þjóðvegur 1 fór í sundur árið 2011 þegar stórt hlaup varð frá Mýrdalsjökli svo brúin yfir Múlakvísl fór í sundur.

Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands hefur fylgst grannt með vatnssöfnun undir sigkötlum í Mýrdalsjökli m.a. með nákvæmum ísjármælingum undanfarin ár.

Sýna niðurstöður mælinganna nú að nægt vatn hefur safnast undir jarðhitakatla í austurhluta Mýrdalsjökuls til að valda heldur stærra hlaupi en komið hefur undanfarin átta ár. Verulegar líkur eru því á hlaupi í Múlakvísl á næstu dögum eða vikum.

Rennsli í flóðtoppi gæti orðið nokkru meira en varð 2017 en sennilega töluvert minna en 2011.

Almannavarnir árétta hvaða hættur fylgja jökulhlaupum og hvernig bregðast skal við ef til þeirra kemur:

Hættur samfara hlaupum í Múlakvísl:
1. Hlaupvatn getur teppt leið frá þjóðvegi 1 inn að Kötlujökli vestan við Hafursey.
2. Hlaupvatn getur runnið yfir og teppt eða rofið þjóðveg 1 við brúna yfir Múlakvísl.
3. Hlaupvatn getur teppt leið í Þakgil.
4. Gasið brennisteinsvetni (H2S) getur verið í það miklu magni í andrúmslofti nærri ánni að það brenni slímhúðir í augum og í öndunarvegi.

Leiðbeiningar:
1. Virðið lokanir og rýmingar ef til þeirra kemur.
2. Haldið ykkur fjarri ánni þegar hlaup er í gangi.
3. Forðist staði þar sem gasmengunar gætir svo sem meðfram ánni og lægðir nærri henni. Stöðvið ekki við brúna yfir Múlakvísl eða Skálm