Í dag spáir Veðurstofan vaxandi austlægri átt og það á að þykkna upp. Vindhraði verður 10-20 m/s, hvassast við fjöll, og það verður slydda eða rigning sunnan- og vestanlands eftir hádegi. Þá verður hægari vindur og úrkomulítið norðan- og austanlands.

Í kvöld lægir heldur með skúrum suðvestantil, en það hvessir í öðrum landshlutum. Á morgun verður austlæg átt, víða 8-15 m/s og dálítil rigning eða slydda.

Hiti verður víða 1 til 6 stig að deginum, en sums staðar vægt frost fyrir norðan.

Veðurhorfur næstu daga

Á föstudag: Austan 5-13, en 13-18 syðst. Él, einkum við S-ströndina, en þurrt að kalla á Vestfjörðum og N-landi. Hiti kringum frostmark. 

Á laugardag: Austanátt, skýjað með köflum og dálítil él A-lands og við S-ströndina. Hiti kringum frostmark S-til á landinu að deginum, en víða 0 til 5 stiga frost annars staðar. 

Á sunnudag: Sunnanátt og slydda eða snjókoma með köflum, en þurrt A-lands. Hiti nálægt frostmarki. 

Á mánudag: Sunnanátt og rigning, en þurrt NA-til á landinu. Hlýnandi í bili. 

Á þriðjudag: Suðvestanátt og él, en léttskýjað A-lands.

Færð á þjóðvegum

Suðvesturland: Víðast greiðfært, þó hálkublettir á Bláfjallavegi og Krýsuvíkurvegi.

Vesturland: Það er greiðfært í Borgarfirði og á Mýrum en annars er víða hálka eða hálkublettir á vegum.

Vestfirðir: Hálka, hálkublettir eða snjóþekja á vegum en greiðfært á kafla við Breiðafjörð.

Norðurland: Hálkublettir eða hálka á flestum leiðum og þoka á Þverárfjalli. Éljagangur er í austanverðum Eyjafirði.

Norðausturland: Hálka eða snjóþekja á vegum og einhver éljagangur. Þæfingsfærð er á Hólasandi.

Austurland: Nánast autt með ströndinni en víðast hálka eða snjóþekja til landsins. Vatnsskarð eystra er ófært og þungfært á Fjarðarheiði en unnið að hreinsun.

Suðausturland: Greiðfært en hálkublettir í Eldhrauni og á nokkrum útvegum.

Suðurland: Vegir eru greiðfærir.

Lokun við Fjaðrárgljúfur framlengd

Vegagerðin bendir á að lokun við Fjaðrárgljúfur hefur verið framlengd. Það er gert vegna hættu á gróðurskemmdum og í öryggisskyni fyrir ferðafólk. Fjaðrárgljúfur í Skaftárhreppi verður lokað að óbreyttu til 1. júní næstkomandi.