„Það sem við sjáum almennt mjög jákvætt í þessu er að Landsvirkjun hefur áform um að stækka núverandi virkjanir í Þjórsá. Þeir ætla að nýta betur það rask sem þegar hefur átt sér stað og tengja það við nýtingu á vindorku,“ segir Tryggvi Felixson, formaður Landverndar, um virkjunarkosti fjórða áfanga rammaáætlunar.

Orkustofnun sendi í síðustu viku verkefnisstjórn fjórða áfanga rammaáætlunar gögn um 43 nýja virkjunarkosti. Af þeim eru 34 í vindorku.

„Það er engin tilviljun að áhugi á vindorku fari vaxandi þar sem kostnaðurinn hefur farið lækkandi. Það er samt ekki fyrirsjáanlegt að eftirspurn eftir raforku verði mjög mikil á næstunni og það er enginn orkuskortur. Þetta eru framtíðarmál en ekkert sem er beint aðkallandi,“ segir Tryggvi.

Óli Grétar Blöndal Sveinsson, framkvæmdastjóri þróunarsviðs Landsvirkjunar, segir að kostnaðurinn við vindorkuna muni halda áfram að lækka. Hann bendir á að á tímabilinu 2010 til 2018 hafi kostnaður á hverja orkueiningu lækkað um rúman þriðjung.

Afgreiðslu Alþingis á þriðja áfanga rammaáætlunar hefur verið frestað til haustþings sem og frumvarpi um hálendisþjóðgarð. Tvö verkefni í vindorku á vegum Landsvirkjunar voru í þriðja áfanga. Blöndu­lundur, sem verkefnisstjórn setti í nýtingarflokk, og Búrfellslundur sem var settur í biðflokk.

Landsvirkjun leggur nú fram breytta útfærslu á Búrfellslundi í fjórða áfanga en fyrirtækið hefur verið með tvær vindmyllur á svæðinu í rannsóknarskyni. „Þarna eru aðstæður eins og þær gerast bestar í heiminum fyrir vindmyllur. Í öðrum löndum eru myllur settar út á sjó til að fá meiri vind og betri nýtni en við fáum þessa nýtni bara á landi þarna,“ segir Óli Grétar.

Gert er ráð fyrir að 30 til 40 vindmyllur rísi í Búrfellslundi með samanlagt afl upp á 120 MW. Óli Grétar segir að við bestu aðstæður á Íslandi, eins og í Búrfellslundi, megi gera ráð fyrir 45 prósenta nýtni.

Miðað við þær forsendur gæti Búrfellslundur framleitt um 470 gígavattstundir á ári. Árið 2018 var heildarraforkuframleiðsla á Íslandi tæplega 20 þúsund gígavattstundir en aðeins 4,4 þeirra komu frá vindorku.

Aðspurður segir Óli Grétar að Landsvirkjun sjái fyrir sér fleiri möguleika í vindorku. „Við sjáum auðvitað að það er gríðarlegur áhugi á vindorku og margir aðilar að senda inn margar hugmyndir. Við höfum verið að einskorða okkur við þessi svæði sem eru nálægt okkar rekstrarsvæðum. Þá erum við nálægt flutningskerfinu og auðvelt að tengja þessa vindorkugarða.“

Engu að síður séu mörg önnur áhugaverð svæði og veltir Óli Grétar því upp hvort það fari að verða kapphlaup um þau bestu.

Tryggvi veltir því líka upp hvort vindorka gæti nýst á stöðum þar sem orku vanti og öflugar tengingar séu ekki til staðar. „Mér finnst líka spennandi að hugsa hvort þetta gæti leyst svona staðbundin viðfangsefni. Svo er kostur að ef viðkomandi starfsemi hættir þá er hægt að flytja vindmyllurnar eitthvert annað.“