Til­slakanirnar sem tóku gildi í gær hafa tals­verð á­hrif á starf­semi Há­skóla Ís­lands. Jón Atli Bene­dikts­son, rektor há­skólans, fundaði í gær bæði með neyðar­stjórn skólans og fræða­sviðum um út­færslu til­slakananna í há­skólanum. Þá hefur tjón vegna vatns­leka í janúar mikinn mögu­leika á Há­skólanum til að bjóða upp á stað­kennslu.

„Niður­staðan er sú að breytingarnar sem voru kynntar hafa nú verið inn­leiddar um eins metra fjar­lægðar­mörk, allt að 150 manns og hólfin tekin út og blöndun leyfð. En nú erum við á vett­vangi deilda og fræða­sviða að skipu­leggja hvernig stað­kennslu verður háttað. Það tekur smá tíma að koma því í gang en það ætti að skýrast í byrjun næstu viku,“ segir Jón Atli í sam­tali við Frétta­blaðið.

Hann segir að margir kennara há­skólans hafi skipu­lagt nám­skeiðin miðað við það hvernig þau byrjuðu, það er í fjar­kennslu, og að sumir nem­endur hafi óskað þess að það verði þannig á­fram en að það verði reynt að koma á stað­kennslu þar sem það er hægt en á sama tíma sé tekið upp eða streymt.

„Það þarf að finna hinn gullna meðal­veg,“ segir Jón Atli.

Stórar stofur ónothæfar

Spurður hvaða á­hrif tjónið og skemmdirnar vegna lekans í janúar hafa á til­slakanir og mögu­leika há­skólans að bjóða nem­endum í stað­kennslu segir hann að það hafi veru­leg á­hrif.

„Þessar stóru stofur sem eru á Há­skóla­torgi og Gimli eru ó­not­hæfar og rýmið okkar er minna en áður til að vera með stað­kennslu en við leitum þeirra lausna sem við getum komið upp með,“ segir Jón Atli.

Hvað varðar skemmdirnar segir Jón Atli að það sé gríðar­legt tjón og það hafi nú þegar verið unnið gífur­legt verk í að þurrka en endur­nýjunar­starf geti ekki hafist fyrr en ó­háðir mats­menn séu búnir að meta tjónið.

„Það koma ó­háðir mats­menn sem meta or­sakir og heildar­um­fang tjónsins og ég geri ráð fyrir því að þeirra vinna hefjist á næstu vikum. Á meðan við erum að bíða eftir þeim þá er ekki hægt að ráðast í endur­bætur vegna þess að það þarf að meta tjónið. En við vonumst eftir góðu sam­starfi við Veitur og fleiri hags­muna­aðila og trygginga­fé­lög þeirra svo að meiri­háttar fram­kvæmdir geti svo hafist sem fyrst í kjöl­farið,“ segir Jón Atli.

Tjónið er verulegt í háskólanum.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Skiptir máli að fá óháða sýn

Mats­mennirnir eru dóm­kvaddir mats­menn og er mikil­vægt að sögn Jón Atla að þeir séu ó­háðir svo hægt sé að fá ó­háða sýn á tjónið.

„Engar fram­kvæmdir hafa því hafist við endur­nýjun en við höfum komið öryggis­búnaði í lag til að varna frekara tjóni. Raf­magns­taflan í Gimli var sem dæmi strax endur­nýjuð og það er verið að skipta um öryggis­búnað sem skemmdist í fimm lyftum í aðal­byggingu, Há­skóla­torgi og Lög­bergi og síðan er eitt­hvað sem lítið hefur farið fyrir en það lak inn á aðal­bygginguna undir upp­byggt gólf svo þar hefur gólfið verið rifið upp að hluta og þar verður steypt. Þetta er um­fangs­mikið því þetta fór inn í fimm byggingar. Það verður farið í að meta tjónið og strax í kjöl­farið hefst þetta endur­nýjunar­starf,“ segir Jón Atli að lokum.