Tilslakanirnar sem tóku gildi í gær hafa talsverð áhrif á starfsemi Háskóla Íslands. Jón Atli Benediktsson, rektor háskólans, fundaði í gær bæði með neyðarstjórn skólans og fræðasviðum um útfærslu tilslakananna í háskólanum. Þá hefur tjón vegna vatnsleka í janúar mikinn möguleika á Háskólanum til að bjóða upp á staðkennslu.
„Niðurstaðan er sú að breytingarnar sem voru kynntar hafa nú verið innleiddar um eins metra fjarlægðarmörk, allt að 150 manns og hólfin tekin út og blöndun leyfð. En nú erum við á vettvangi deilda og fræðasviða að skipuleggja hvernig staðkennslu verður háttað. Það tekur smá tíma að koma því í gang en það ætti að skýrast í byrjun næstu viku,“ segir Jón Atli í samtali við Fréttablaðið.
Hann segir að margir kennara háskólans hafi skipulagt námskeiðin miðað við það hvernig þau byrjuðu, það er í fjarkennslu, og að sumir nemendur hafi óskað þess að það verði þannig áfram en að það verði reynt að koma á staðkennslu þar sem það er hægt en á sama tíma sé tekið upp eða streymt.
„Það þarf að finna hinn gullna meðalveg,“ segir Jón Atli.
Stórar stofur ónothæfar
Spurður hvaða áhrif tjónið og skemmdirnar vegna lekans í janúar hafa á tilslakanir og möguleika háskólans að bjóða nemendum í staðkennslu segir hann að það hafi veruleg áhrif.
„Þessar stóru stofur sem eru á Háskólatorgi og Gimli eru ónothæfar og rýmið okkar er minna en áður til að vera með staðkennslu en við leitum þeirra lausna sem við getum komið upp með,“ segir Jón Atli.
Hvað varðar skemmdirnar segir Jón Atli að það sé gríðarlegt tjón og það hafi nú þegar verið unnið gífurlegt verk í að þurrka en endurnýjunarstarf geti ekki hafist fyrr en óháðir matsmenn séu búnir að meta tjónið.
„Það koma óháðir matsmenn sem meta orsakir og heildarumfang tjónsins og ég geri ráð fyrir því að þeirra vinna hefjist á næstu vikum. Á meðan við erum að bíða eftir þeim þá er ekki hægt að ráðast í endurbætur vegna þess að það þarf að meta tjónið. En við vonumst eftir góðu samstarfi við Veitur og fleiri hagsmunaaðila og tryggingafélög þeirra svo að meiriháttar framkvæmdir geti svo hafist sem fyrst í kjölfarið,“ segir Jón Atli.

Skiptir máli að fá óháða sýn
Matsmennirnir eru dómkvaddir matsmenn og er mikilvægt að sögn Jón Atla að þeir séu óháðir svo hægt sé að fá óháða sýn á tjónið.
„Engar framkvæmdir hafa því hafist við endurnýjun en við höfum komið öryggisbúnaði í lag til að varna frekara tjóni. Rafmagnstaflan í Gimli var sem dæmi strax endurnýjuð og það er verið að skipta um öryggisbúnað sem skemmdist í fimm lyftum í aðalbyggingu, Háskólatorgi og Lögbergi og síðan er eitthvað sem lítið hefur farið fyrir en það lak inn á aðalbygginguna undir uppbyggt gólf svo þar hefur gólfið verið rifið upp að hluta og þar verður steypt. Þetta er umfangsmikið því þetta fór inn í fimm byggingar. Það verður farið í að meta tjónið og strax í kjölfarið hefst þetta endurnýjunarstarf,“ segir Jón Atli að lokum.