Eftir krefjandi vetur hjá Landsvirkjun hefur staða vatnsbúskapar batnað umtalsvert, að því er sérfræðingar hennar segja.

Snjósöfnun vetrar þótti vel yfir meðallagi og að sögn vaktmanna tók snjóbráð vorsins snemma við sér og skilaði sér vel í miðlunarlón.

Blöndulón og Þórisvatn náðu lægstu stöðu seinni hluta mars og hófst söfnun fljótlega í kjölfarið og hefur haldist stöðug síðan. Hálslón náði lægstu stöðu um miðjan maí og hefur söfnun verið rólegri þar en í öðrum miðlunum, enda spilar jökulbráð þar stærri þátt í innrennsli ársins.

Nú, seinni hluta júlímánaðar, hefur hægst á söfnun þar til að jökul­bráð tekur við sér með hækkandi hitastigi á hálendinu.

Samkvæmt úttekt eru góðar líkur á að Blöndulón og Hálslón fyllist í ágúst en undir helmingslíkur á að Þórisvatn fari á yfirfall í sumar.