Ragnar Freyr Ingvarsson, fyrrverandi yfirlæknir Covid-göngudeildarinnar, segir að bara á sex vikum hefur Ómíkron-afbrigðið náð heimsyfirráðum og gerbreyt öllu.
„Covid er gjörólíkur sjúkdómur þeim sem við þekktum bara fyrir nokkrum vikum,“ skrifar Ragnar og spyr hvort viðbrögð okkar ættu að breytast?
„Mun fleiri smitast, en mun færri leggjast inn á sjúkrahús. Færri leggjast inn vegna COVID, þó nokkrir leggjast inn með COVID. Sárafáir enda á gjörgæslu. Innlagnartíðni vegna Omikron á Íslandi er lægri en í Danmörku og margfalt lægri en af Delta afbrigði veirunnar,“ skrifar Ragnar og bætir við að þetta er ekki bara tilfinning.
„Þetta er stutt af rannsóknum,“ bætir hann við.
Faraldurinn mestur meðal barna, unglinga og ungra fullorðinna
Ragnar bendir á í gær var greint frá því að 45 sjúklingar lægju inni á Landspítala vegna COVID. Komið hefur fram að hluti þeirra er þegar laus úr einangrun og umtalsverður fjöldi liggur inni vegna annarra læknisfræðilegra vandamála en eru samtímis greindir með COVID.
„Fyrir meira en viku síðan birtist í fjölmiðlum niðurstöður spálíkans sem hefur verið lagt til grundvallar stórra ákvarðana. Kallað var eftir útgöngubanni í samfélaginu. Á föstudag voru settar fram nýjar takmarkanir byggðar á þessari spá,“ skrifar Ragnar.
„Þær takmarkanir sem lagðar eru á - munu ólíklega skila tilætluðum árangri, enda er faraldurinn mestur meðal barna, unglinga og ungra fullorðinna í menntaskóla og háskóla. Og líklega mun útbreiddari en við höldum.“
Tímabært að endurskoða aðgerðir
Ragnar segir að víða erlendis sé verið að endurskoða nálgun í ljósi breyttra aðstæðna og allastaðar í kringum okkur er verið að skilgreina viðbrögð upp á nýtt í ljósi nýrra forsendna m.a. á hinum Norðurlöndunum. Þar er verið að endurhugsa skimanir, sóttkví, viðbrögð almennings og á heilbrigðisstofnunum. „Tímabært er að við gerum slíkt hið í sama,“ skrifar Ragnar.
„Við þurfum að þrauka í gegnum harðar samfélagsaðgerðir enn á ný. Að þessu sinni erum við á leið út af sporinu. Mikilvægt er að við komum okkur á rétta braut fyrr en seinna. Loksins sést til sólar,“ segir hann að lokum og deilir mynd sem sýnir að Ísland er í betri málum en bjartsýnasta spáin.
