Yfir­lýsing dómara við upp­haf fyrir­töku í laga­stuldar­máli Jóhanns Helga­sonar í Los Angeles fyrir tíu dögum vekja aukna bjart­sýni í her­búðum Jóhanns um að málið haldi á­fram í sama far­vegi en verði ekki vísað frá eins og lög­menn and­stæðinga hans krefjast.

Sam­kvæmt heimildum Frétta­blaðsins sagði dómarinn, Andre Birotte Jr., að honum sýndist um að ræða dæmi­gert mál þar sem sér­fræðingar takist á og kvið­dómur þurfi að skera þar úr um. Sem er ein­mitt það sem Jóhann vill að verði en þeir sem hann stefnir í málinu vilja koma í veg fyrir.

Tón­listar­sér­fræðingur sem vann sér­fræði­á­lit fyrir Uni­ver­sal Music, Warner Music, Peermusic og UMG Recording sagði engin líkindi milli lags Jóhanns, Söknuðar, og lagsins You Raise Me Up eftir Rolf Lovland og Brendan Graham. Þess vegna segja lög­menn þessara fyrir­tækja að vísa beri málinu frá. Komið hefur fram að Judith Finnel, tón­listar­fræðingur sem Jóhann réði, komst að þver­öfugri niður­stöðu.

Von á úrskurði fyrir jól

Tal E. Dick­stein, lög­maður áður­nefndra fyrir­tækja, kom sér­stak­lega frá New York til að vera við fyrir­töku málsins 6. desember. Krafðist hann þess að dómarinn úr­skurðaði að í málinu væri ekki hægt að styðjast við greinar­gerð Judith Finnel. Þá óskaði hann þess að fá að leggja fram nýja 25 síðna greinar­gerð í málinu sem dómarinn hafnaði um­svifa­laust.

Von er á úr­skurði dómarans um frá­vísunina fyrir jól. Vísi hann málinu ekki frá má búast við því að sam­hliða taki hann af­stöðu til kröfu lög­manns Jóhanns, Michaels Machat, um að höfundar You Raise Me Up fái á sig svo­kallaðan úti­vistar­dóm þar sem þeir hafa í engu brugðist við þótt þeim hafi verið lög­lega stefnt.

Andre Birotte Jr. dómari í Los Angeles.

Réttarhöldin færu fram eftir ár

Jóhann segir að það kæmi honum mikið á ó­vart ef dómarinn vísar málinu frá. Hann rifjar upp ráð­gefandi álit ó­háðs lög­manns í London, svo­kallaðs bar­ri­sters, frá árinu 2008 sem kvaðst viss um að dómari kæmist að þeirri niður­stöðu að um laga­stuld væri að ráða.

„Það væri gjör­sam­lega á skjön við allt sem sér­fræðingar hafa sagt hingað til,“ segir Jóhann. Verði niður­staðan honum í hag geti mála­reksturinn haldið á­fram eftir tafir vegna frá­vísunar­kröfunnar. Það yrði þó ekki fyrr en í desember á næsta ári sem sjálf réttar­höldin færu fram fyrir kvið­dómi.